145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

hlutverk LÍN.

[15:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. 99% námsmanna taka námslán núna innan við 18 milljónir. Það er því engin grundvallarbreyting hér á ferðinni, en það sem er verið að leggja upp með, og ég hlakka til að eiga þá umræðu á morgun, er að við tökum upp sama fyrirkomulag og við þekkjum á Norðurlöndunum, annars vegar lánakerfi og hins vegar styrkjakerfi þar sem styrkirnir eru gegnsæir og ákveðið jafnræði ríkir varðandi úthlutun á þeim. Það held ég að sé skynsamlegt. Námsmannahreyfingarnar hafa kallað eftir því ítrekað að slíkt fyrirkomulag verði tekið upp, að við tökum upp svipað fyrirkomulag og við þekkjum á Norðurlöndunum, og ég held að ekki sé vanþörf á. Þegar við skoðum íslenska menntakerfið og stöðu mála þar og hvernig þessir þættir hafa virkað saman hjá okkur þá er það svo, og það hlýtur að vera til umhugsunar, að við Íslendingar eigum einhvers konar heimsmet í því hversu gömul við erum þegar við ljúkum háskólanámi. Meðalaldur hér á BS- og BA-gráðunni er rétt rúmlega 30 ár. Samhengi þessara hluta og síðan þeirra breytinga sem við erum að gera á framhaldsskólakerfinu er að færa íslenska menntakerfið nær því sem við þekkjum á Norðurlöndum (Forseti hringir.) þannig að íslenska menntakerfið standi snúning og samanburð við það sem best gerist og verði þar með grunnur að góðum lífskjörum á Íslandi í framtíðinni.