145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra fór hér yfir stöðu efnahagsmála og talaði um hina sönnu stöðu efnahagsmála. Það stakk mig aðeins því að við sem erum í stjórnmálum vitum að það skiptir máli hvað er sagt og hvað er ekki sagt. Hæstv. forsætisráðherra talaði um stöðugleika, bjartari tíma og lága verðbólgu. Hann sleppti því að minnast á hátt vaxtastig, stýrivexti Seðlabankans upp á 5,75%, sleppti því að nefna að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, þeirrar sem nú situr og þeirrar sem sat á undan, þ.e. á þessu kjörtímabili, hafa einkennst af þeirri forgangsröðun að passa upp á hina efnameiri. Það rekur sig allt aftur til fyrsta verkefnis ríkisstjórnarinnar sem var að lækka veiðigjöld á stórútgerðina. Síðan getum við skoðað ýmsar þær breytingar sem hafa verið gerðar á skattstefnu. Við getum horft til lokunar í menntakerfinu, við getum horft til þrenginga á vaxtabótum og barnabótum. Allt hefur þetta gagnast hinum efnameiri. Það besta sem ríkisstjórnin hefur gert í þessum málum var að senda út fréttatilkynningu um aukinn jöfnuð sem byggði á tölum frá 2013 sem þurfti að leiðrétta eftir að sú tilkynning fór út.

Við metum efnahagslíf út frá ýmsum stærðum. Jöfnuður skiptir þar máli eins og aðrar stærðir og það var ekki mikið um það í ræðu hæstv. forsætisráðherra sem nefndi ekki heldur að kosningum var flýtt í kjölfar þess að fyrrverandi forsætisráðherra sagði af sér. Þjóðin horfði framan í þá staðreynd að í þessu landi hafa verið tvær þjóðir sem hafa spilað á ólíkum leikvöllum þegar kemur að því hvernig menn geta fjárfest og hvaða reglum er fylgt. Þar er ólíku saman að jafna, þeim sem hafa getað geymt eignir sínar í aflandsfélögum í skattaskjólum og þeim sem hafa spilað eftir leikreglum íslensks atvinnulífs. Þetta er ástæðan fyrir því að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar komu í tröppurnar í kjölfar óvænts blaðamannafundar eins stjórnarþingmanns og tilkynntu að kosningum yrði flýtt og kjörtímabilið stytt um eitt þing. Það var af því að það varð alger trúnaðarbrestur þegar menn horfðu framan í þennan sannleika. Þó að menn hafi velt fyrir sér kjördeginum síðan er þetta staða málsins sem er ekki hægt að skauta svo létt yfir þegar við förum yfir stöðu þjóðmálanna, eins og það er orðað.

Við erum nú að hefja stutt þing, við höfum ekki allan tíma heimsins fram undan til að ljúka stórum málum. Stjórnvöld munu að sjálfsögðu setja áherslu sína á einhver tiltekin mál sem við eigum eftir að fara yfir í þinginu. Ég legg áherslu á og vona að ríkisstjórnin leggi áherslu á að ljúka vinnu við frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir á vordögum um aðgerðir gegn skattaskjólum. Það væri sómi að því ef þingið gæti lokið því máli fyrir kosningar. Það er reyndar von á verulegum breytingum við það mál en ég vænti þess að um það ætti að nást góð samstaða. Ég nefni líka að við fengum af því fréttir í sumar að hæstv. umhverfisráðherra hefði sett á laggirnar starfshóp til að skoða hugsanlega stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Ég tel ekki neitt standa í vegi fyrir því að Alþingi Íslendinga afgreiði tillögu sem hér liggur inni frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um stofnun miðhálendisþjóðgarðs sem hefur fengið afar jákvæðar umsagnir í meðförum hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Okkur væri sómi að því að ljúka því máli.

Ég minni líka á mál sem hefur verið kallað eftir í þinginu og hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa talað um með jákvæðum hætti sem er fullgilding loftslagssáttmálans. Hér hafa menn nefnilega talað um að það sé mikilvægt að ná góðri samstöðu um þingstörfin. Ég tek undir að það er mikilvægt að ná góðri samstöðu um þingstörfin en þá verður það líka að vera þannig að við náum saman um það hvaða mál við ætlum að leggja áherslu á að ljúka. Ég tel að um þau þrjú mál sem ég hef nefnt hér geti náðst góð samstaða út frá því hvernig hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn hafa talað. Ég sakna þess hins vegar að heyra ekki minnst á slíkar áherslur þegar verið er að ræða hvað eigi að leggja áherslu á á því stutta þingi sem er fram undan. Þegar ég nefni miðhálendisþjóðgarð og loftslagssáttmálann er t.d. um að ræða mál sem munu varða komandi kynslóðir líklega meiru en flest önnur mál sem hér liggja undir.

Ég vænti þess þegar við förum inn í þetta stutta þing í aðdraganda kosninga að við leggjum öll okkar af mörkum til að þingstörf geti gengið sem best fyrir sig. Þá er líka mikilvægt að við ræðum saman um það hverju við viljum ná fram. Það liggur fyrir, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði líka, að það eru mismunandi skoðanir og til þess að myndin af stöðu efnahagsmála geti verið sönn þurfum við að hafa fleiri þætti til að ná sannri mynd.