145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:15]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða stöðu þjóðmála og umræðan gengur eiginlega bara út á krónur og aura. Við erum komin hingað saman í Alþingishúsið í ágúst sem er mjög óvenjulegt og ríkisstjórnin er búin að boða til kosninga í október, búin að taka þá ákvörðun að stytta kjörtímabilið og flýta kosningum. Það er óvenjulegt. Á hverju stendur? Hvað kom til? Er þetta bara vegna þess að menn gáfust upp á verkefninu, nenntu því ekki lengur, eða er eitthvað stærra á bak við? Við vitum að ástæðan fyrir því að við erum hérna, ástæðan fyrir því að við erum að fara inn í kosningar, er sú að það varð algjör upplausn í íslensku þjóðfélagi í vor í kjölfar Panama-skjalanna. Það var í rauninni fullkomið hrun á trausti á milli landsmanna og stjórnvalda og í raun og veru stjórnmálanna.

Hér fyrir utan stendur hópur fólks sem er að mótmæla komu útlendinga til landsins og reyndar til allrar hamingju stærri hópur fólks sem er að mótmæla þeim mótmælum. Þarna takast á hugmyndafræði óttans annars vegar og bjartsýninnar og hugrekkisins hins vegar. Við sjáum þetta vera að gerast í stjórnmálum, ekki bara á Íslandi heldur líka um allan heim. Við sjáum stjórnmál óttans í forsetakosningunum í Bandaríkjunum núna. Við sáum hvernig spilað var inn á óttann í atkvæðagreiðslunni um Brexit í Englandi í sumar og við finnum það á Íslandi að gerjun er í hugum og maga fólks. Það er ástæðan fyrir að við erum að fara að kjósa í haust. Biðlundin fyrir gamalli pólitík, fyrir hrokafullri pólitík, fyrir óbreyttu ástandi og ójöfnuði, óréttlæti í íslensku samfélagi, biðlundin fyrir þessu og meðvirknin fékk svo á kjaftinn í vor að fólk nennir þessu ekki lengur.

Nú erum við að fara inn í kosningar eftir nokkrar vikur. Á þessu þingi verða rædd, ja, ég veit það ekki, talað er um tugi mála sem eru komin inn í þingið. Það fer eftir því hver talar hversu mörg stór mál eiga eftir að koma inn í þingið. Reikna má með því og maður heyrir nú þegar að byrjað er að sýna á spilin, lofa auknum útgjöldum, lofa allra handa víxlum inn í framtíðina, en það sem eftir situr er spurningin: Hver er trúverðugleikinn? Það er stóra spurningin.

Getum við horft framan í kosningar þar sem við erum sátt við hærri tekjur ríkisins, sem við vitum öll að koma ekki síst vegna fjölgunar ferðamanna, vegna hagstæðs olíuverðs o.s.frv., en óbreytt kerfi í sjávarútvegi þar sem örfáum er úthlutað landsins gögnum og gæðum, lokuð kerfi í landbúnaði o.s.frv.? Ég held að það sé nokkuð ljóst að ástæðan fyrir því að við erum hérna saman komin í ágúst á þingi til að vinda ofan af kjörtímabili sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að stytta með kosningum í haust er sú að fólk vill breytingar. Við getum gert ýmislegt á þinginu, við áttum góðar vikur í vor þar sem þingstörfin gengu vel og við tókum mikilvægar ákvarðanir og samþykktum mikilvæg mál í breiðri sátt. Við kunnum þetta alveg og það er kallað eftir þessu. Þess vegna segi ég, kæru þingmenn, við okkur öll: Vinnum eins og fólk, stöndumst þessar væntingar og reynum að komast upp úr hjólförunum.