145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum stöðu þjóðmála og það er ekki eins og allt sé í himnalagi í þeim málum þó að hæstv. forsætisráðherra láti svo.

Ég vil minnast á nokkur atriði á þeim stutta tíma sem ég hef. Innviðauppbyggingin í landinu er eitt mikilvægasta verkefnið fram undan og við vinstri græn leggjum mikla áherslu á að farið verði út í framkvæmdir, viðhald vega og almenna innviðauppbyggingu sem fyrst. Eins og málin standa núna er til algjörrar skammar fyrir þessa ríkisstjórn hvernig hún hefur dratthalast í öllum þessum málum og segir svo: Ja, þetta gæti lagast ef einkaaðilar kæmu að málinu. Hvers lags umræða er þetta eiginlega? Samgönguáætlun er óafgreidd og rímar ekki við ríkisfjármálaáætlun. Nýframkvæmdir eru sáralitlar og með þessum mikla aukna straumi ferðamanna til landsins er óöryggi á vegum landsins. Við þurfum að tryggja öryggi ferðamanna og vegfarenda almennt og horfa til þess að efla heilsugæslu og löggæslu sem hefur verið undir miklu álagi með þessum mikla aukna ferðamannastraumi.

Hér er rætt um ýmis þjóðþrifamál eins og lengingu fæðingarorlofs. Ég undirstrika að fyrri ríkisstjórn lagði til lengingu á fæðingarorlofi sem núverandi ríkisstjórn féll frá. Nú er komið, korteri fyrir kosningar, og öllu fögru lofað.

Við vinstri græn höfum lagt fram þingsályktunartillögu sem hefur verið afgreidd og samþykkt um að skoða hvernig eigi að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og við viljum ganga þann veg til enda og vinna að því. Við styðjum lengingu fæðingarorlofs, þótt fyrr hefði verið, og hækkun þaks í fæðingarorlofi. En það er ekki trúverðugt þegar menn koma rétt fyrir kosningar, búnir að slá þessi mál út af borðinu við upphaf kjörtímabilsins og lofa núna öllu fögru. Hverjir eiga að trúa því þegar menn horfa á það sem gert hefur verið á síðustu þrem árum? Þau verk hafa ekki verið í þágu aldraðra, öryrkja, unga fólksins eða innviðauppbyggingar í landinu.

Við vinstri græn lögðum líka fram beiðni um skýrslu um kjör aldraðra. Sú skýrsla liggur fyrir. Við viljum að þeirri kröfu verði fylgt eftir að eldri borgarar og öryrkjar fái sömu launahækkanir og launafólk, þ.e. 300.000 krónurnar sem við ræddum hér mikið í vor og síðasta vetur. Sú krafa er óhögguð. Eldri borgarar hafa miklar áhyggjur af kjörum sínum sem og öryrkjar. Þessi ríkisstjórn hefur algjörlega svikist undan því að sinna þeim málaflokki svo vel sé.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur lofað, lofað og lofað en efndirnar hafa ekki verið þær sem búast mætti við. Akkillesarhæll þessarar ríkisstjórnar er að vilji sumra kemst ekki í framkvæmd vegna þess að þetta er í raun hægri sinnuð stjórn sem hugsar fyrst og fremst um forréttindahópa og að þeir sem minna mega sín í þessu samfélagi hafa orðið út undan. Það sem þarf að gera er að breyta um kúrs í stjórnmálum áður en þessari ríkisstjórn tekst að brjóta meira niður innviði landsins og velferðarkerfisins. Þar á verður vonandi breyting (Forseti hringir.) þegar kosið verður í lok október.