145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu í dag. Það er mikilvægt að við gefum okkur tíma til þess að líta til framtíðar og skoða hvernig við sjáum hlutina fyrir okkur þróast og hvað það er sem við viljum vinna að í þinginu þá örfáu daga sem eftir eru á þingi þar til kosningar og kjördagur rennur upp. Þess vegna kemur mér svolítið á óvart hversu fáum orðum stjórnarandstæðingar hafa vikið að framtíðinni. En gott og vel, menn ráða því auðvitað sjálfir hvernig þeir nýta sinn stutta tíma í þingsalnum.

Það er þannig að ungt fólk velur sér búsetu eftir því hvar gott er að búa. Það er ekki þannig að Ísland sé einangrað svæði og það komi ekkert annað til greina hjá ungu fólki sem er að velja sér framtíð en að búa hér. Þess vegna þurfum við að hlúa vel að því að jöfn tækifæri séu fyrir ungt fólk á Íslandi. Við þurfum að tryggja að hér sé hægt að fjárfesta í húsnæði og hægt að byggja upp góða framtíð. Það er stóra verkefnið sem við stöndum öll frammi fyrir og við öll, sama hvaðan úr flokki við komum, eigum að vinna í sameiningu að. Ég tel að það sé það sem þjóðin okkar vill fá að sjá og vill fá að heyra frá þessu þingi.

Eitt af því er húsnæðið. Við sáum áform ríkisstjórnarinnar kynnt hér í dag. Annar liður er fæðingarorlofið. Ég trúi því að nú þegar þessi viðspyrna, sem okkar ágæti hæstv. fjármálaráðherra fór yfir í mjög góðu máli, hefur náðst gagnvart stöðu ríkissjóðs þá sjáum við fram á að hægt sé að gefa þau vilyrði að fjármunum verði bætt í Fæðingarorlofssjóð. Það er loforð með innstæðu ólíkt því sem við sáum fyrir síðustu kosningar þegar loforðalisti þáverandi ríkisstjórnar var birtur nokkrum dögum fyrir kosningar án innstæðu, um hin og þessi verkefni sem fjármunir framtíðarinnar áttu að fara í. Það er það sem þessi ríkisstjórn hefur gert; búið til traustan grunn þannig að hægt sé að byggja upp að nýju. Við skulum vanda okkur við það hvernig við tökum þær ákvarðanir. Ég tel að það sé stóra verkefnið, bæði á þeim þingstubbi sem nú stendur yfir og eins á komandi kjörtímabili, vegna þess að það er þannig að viðspyrna hefur náðst. Við höfum skilað hallalausum fjárlögum. Það er meiri afgangur á þessu ári en halli alls síðasta kjörtímabils. Það er innstæða fyrir þeirri 10% raunaukningu frumútgjalda ríkisins sem hefur birst okkur í áætlunum þessarar ríkisstjórnar. Munurinn á þessari ríkisstjórn og síðustu ríkisstjórn er að það er innstæða fyrir þeim fyrirætlunum sem við boðum.

Það er svolítið merkilegt að heyra þennan áróður um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hugsi bara um ríkt fólk. Það stenst auðvitað ekki skoðun þegar maður horfir til þeirra skattalækkana sem hafa verið boðaðar og munu taka gildi núna um áramótin, þar sem allir þeir sem eru undir 800 þús. kr. munu njóta skattalækkunar. (Gripið fram í.)Þannig liggja einfaldlega staðreyndirnar fyrir og það er rangt sem núverandi stjórnarandstöðuflokkar, sama hvað þeir reyna að benda á það, halda fram, að hér sé eingöngu verið að ívilna ríku fólki. Það er rangt þegar við horfum til þess hvað leiðréttingin hefur gert. Það er rangt þegar við horfum til eins af fyrstu verkefnum þessarar ríkisstjórnar sem var að afnema þær skerðingar sem fyrrverandi ríkisstjórn þurfti á erfiðum tímum að leggja á aldraða og öryrkja. (Gripið fram í.)Það er rangt að halda því fram. Þess vegna sakna ég þess í umræðunni að stjórnarandstöðuflokkarnir tali meira um framtíðina.

Ég tel að eitt af mikilvægari verkefnum næsta kjörtímabils sé að horfa til heilbrigðiskerfisins. Hvað er það sem við ætlum að styrkja þar? Umræðan um stóran þjóðarspítala hefur verið mjög fyrirferðarmikil í samfélaginu. Við megum ekki gleyma grunninum að öllu í heilbrigðisþjónustunni, sem er heilsugæslan, vegna þess að við öll, allir íbúar landsins þurfa að treysta því að þeir eigi greiðan og góðan aðgang að grunnþjónustunni, heilsugæslunni. Þess vegna er ánægjulegt að horfa til starfa núverandi heilbrigðisráðherra sem leggur áherslu á að styrkja þetta svið heilbrigðiskerfisins. Það er mikilvægt. Við höfum rætt mikið í velferðarnefnd, þar sem er gott samstarf milli allra flokka, hvernig við getum gert þetta. Við náðum mjög góðri niðurstöðu t.d. í vor varðandi stór mál, varðandi sjúkratryggingarnar, og það er vel.

Ég hef upplifað það í þinginu að þegar fulltrúar allra flokka setjast saman yfir stórar spurningar, stór mál, um það hvernig við ætlum að haga stjórn landsins til framtíðar, hlustum hvert á annað með athygli og reynum að ná saman um breytingar sem eru öllum til hagsbóta, þá náum við miklum árangri. Við náðum að gera það varðandi sjúkratryggingarnar. Við náðum að gera það varðandi breytingar á dómstólaskipan landsins og við náðum að gera það varðandi breytingar á því hvernig við nálgumst útlendingamál á Íslandi. Við getum svo vel unnið saman og náð árangri. Ég tel að við öll hérna inni viljum það innst inni. Þótt við þurfum kannski að gera meira úr ágreiningi okkar á milli oft á tíðum til þess að komast í fjölmiðlana þá megum við samt aldrei gleyma því að þegar við virkilega leggjum okkur fram, vinnum saman og horfum til framtíðar eru okkur allir vegir færir. Við getum gert landinu okkar mikið gagn og það skulum við einsetja okkur að gera á þeim fáu dögum sem eftir eru af þessu þingi.