145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:44]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Frú forseti. Við ræðum hér stjórnmálaástandið. Forsætisráðherra hefur lýst sinni sýn, en þegar ég lít um öxl sé ég eitthvað annað. Ég sé glundroða. Ég sé fyrrverandi forsætisráðherra sem varð uppvís að því að segja ósatt. Ég sé þjóð sem ber ekki traust til stjórnmálamanna. Og ég sé stjórnarmeirihluta sem brást við Panama-skjölunum með því að lofa fólkinu kosningum en þráaðist svo við í marga mánuði með að nefna kosningadaginn. Og enn eru uppi skringilegir varnaglar við því loforði við þjóðina.

Á dögunum heyrði ég svo hæstv. ráðherra Gunnar Braga Sveinsson lýsa sinni sýn, hvað honum fyndist mikilvægt í pólitík, hvað skilgreindi styrkleika og veikleika þar. Þar teiknaði hann upp og lýsti svo vel, og ég vil þakka honum fyrir það, hvernig Björt framtíð sem óumdeilt afl væri á andstæðum pól við umdeilda stjórnmálamenn líkt og fráfarandi forsætisráðherra.

Það eru teikn á lofti alls staðar í kringum okkur, í Bandaríkjunum og í Tyrklandi svo dæmi séu tekin, um að það eru tveir pólar sem berjast um völd og áhrif í veröldinni. Það eru þeir sem ala á sundrung og hræðslu, þeir sem vilja einangra og ala á tortryggni, og svo eru það hinir sem boða traust til náungans, frelsi til athafna, jafnræði og von. Þannig afl er Björt framtíð. Við boðum umburðarlyndi, frjálslyndi og heiðarleika og við hugsum um almannahag, ekki sérhagsmuni fárra sem eru inn undir eða í klíkunni. Þetta birtist t.d. í því að við tökum ekki í mál að fyrirliggjandi búvörusamningar fari í gegn þar sem samkeppni og jafnræði er hent fyrir róða í mjólkurvinnslu. Það er stór atvinnugrein sem að sjálfsögðu á að vera á samkeppnismarkaði.

Já, við erum óumdeild. Kannski er það vont fyrir fylgið. Ég skal ekki segja. En ég vona að fólk meti það mikils. Við boðum sáttfýsi og samtal sem leiðir til þess að hlutirnir virki til langframa. Við erum í meirihlutasamstarfi í nokkrum stærstu sveitarfélögum landsins. Þar eru að gerast hlutir sem vekja ekki upp deilur. Hvað er t.d. að frétta úr Kópavogi? Það er allt gott að frétta þaðan, þaðan berast bara góðar fréttir sem er dálítið annað en fólk átti að venjast þar frá fyrri tíð. En stjórnmálaástandið á Íslandi er þannig að Björt framtíð hefur enn mikið verk að vinna. Við bjóðum okkur fram í að gera það áfram af auðmýkt fyrir verkefninu og fólkinu í landinu. Ég vona að við lærum af því hversu dýrkeypt það getur verið að ráða til sín fólk í vinnu sem er valdadrifið og vinnur að sérhagsmunum. Glepjumst ekki af því hver veifar til okkar stærsta peningabúntinu. Gerum eins og í forsetakosningunum. Veljum sáttfús öfl til valda.