145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

loftferðasamningur við Japan.

768. mál
[17:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Auðvitað er hún sammála mér vegna þess að það er varla nokkur skapaður hlutur sem við hæstv. ráðherra erum ósammála um, hvað þá þetta tiltekna mál sem er mikið hagsmunamál.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir og ég upplifði sjálfur á eigin skinni sem ráðherra þegar ég fór í slíka för til Japans eins og forveri hennar, að þeir eru þverir og staðir og vilja ekki samninga við lítil ríki eins og okkur. Það er þess vegna sem þeir standa líka gegn því að gera fríverslunarsamning við okkur. En við erum náið bandalagsríki Japans. Þeir þurfa líka á okkur að halda. Við erum samferða þeim í samfélagi vestrænna lýðræðisþjóða og byggjum samfélagsskipan okkar á sömu reglum. Þeir eiga ekki að komast upp með að vísa til smæðar okkar. Þá er um óheilindi að ræða í samstarfi og það er ekki eins tært og það skyldi vera.

Hæstv. ráðherra er kunnugt um að fyrirspurn mín var lögð fram í vor. Þá átti hún fyrir höndum sólríkt og annasamt sumar. Ég ætlaði auðvitað að leggja til að hún mundi verja parti af því til að fara þangað sjálf í sumar vegna þess að um mikið hagsmunamál er að ræða. Það hefði treyst samskipti við þessa þjóð og hefði líka getað undirbyggt gerð fríverslunarsamnings sem þeir hafa skirrst við að gera við okkur.

Japanar þurfa líka á okkur að halda í öðrum skilningi. Við erum stofnþjóð Atlantshafsbandalagsins. Það er ekki langt síðan Abe forsætisráðherra kom til höfuðstöðva Atlantshafsbandalagsins í Brussel og kallaði eftir samstöðu og skilningi á sinni stöðu. Hann er í viðkvæmri stöðu sem forsætisráðherra þjóðar því að maður sér að það eru að rísa úfar í Suðaustur-Asíu milli Japana og Kínverja. Japanar þurfa á okkur að halda. Það hlýtur að koma að þeim tímapunkti að þeim verði sagt það umbúðalaust að okkur mislíki gróflega með hvaða hætti þeir koma fram við okkur og vísa til smæðarinnar. (Forseti hringir.) Ef það eru einhver rök sem við tökum aldrei gild þá er það smæðin. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða, brýni hana lögeggjan, en geri mér grein fyrir því að hún hefur kannski (Forseti hringir.) annað mikilvægara að gera á allra næstu vikum en að skreppa til Japans. Þó mundi ég gera það í hennar sporum.