145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

loftferðasamningur við Japan.

768. mál
[17:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, (ÖS: … alltaf?)já, mjög oft, það er alveg rétt, vegna þess að við látum auðvitað aldrei tala þannig til okkar að smæð skipti einhverju máli og við tökum þau rök ekki gild. Ég mun taka það sérstaklega upp við þingmannanefndina hvernig þeir hafa vísað til þessa og líka til þeirrar aukningar sem hefur átt sér stað hvað varðar túrisma frá Japan. Ég er einnig sammála hv. þingmanni þess efnis að viðskipti við Austur-Asíu skipti okkur miklu máli. Þar eru mörg tækifæri. Kaupgeta hefur vaxið þar alveg gríðarlega og hefur auðvitað verið talsvert mikil í Japan á síðustu missirum. Eins horfi ég til Suður-Kóreu sem samstarfsríkis og við viljum efla þau samskipti. Þarna eru mörg tækifæri. Svo er það auðvitað þannig að flugsamgöngur eru ein af mikilvægustu atvinnugreinum Íslands og skapa miklar gjaldeyristekjur. Það hefur verið lagt mikið kapp á að fjölga loftferðasamningum undanfarin ár enda eru íslenskir flugrekendur með starfsemi víða um heim. Nú er svo komið að Ísland hefur gert alls 94 samninga og viljayfirlýsingar sem heimila loftferðir til 109 ríkja, en þar af er hægt að beita samningnum við 100 ríki. Þetta er eitt af því sem ég ætla að nefna líka þegar ég hitti japönsku þingmennina að það er auðvitað svolítið sérstakt að þeir sjái sér ekki fært að gera slíka samninga þegar við höfum getað gert samninga við öll þessi ríki.