145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

læsisátak.

771. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað langt um liðið síðan þessi fyrirspurn var lögð fram, þ.e. í maí. Nú þegar hefur að hluta til verið svarað í fyrirspurn sem annar þingmaður bar fram, hluta af því sem ég er að spyrja um er svarað þar, sérstaklega hvað varðar kostnaðarhliðina.

Eins og kunnugt er blandaðist Menntamálastofnun inn í umræðuna um læsisátak ráðherra. Við ræddum töluvert um byrjendalæsi sem hefur verið í hávegum haft í Háskólanum á Akureyri, sem hefur tekið utan um lestrarkunnáttu grunnskólabarna. Við gagnrýndum, og margir fleiri, niðurstöðu og framsetningu stofnunarinnar mjög sem var að leskunnátta væri að versna og staðan árið 2012 væri sérstaklega slæm. Það kom svo í ljós að hún var svo sem ekkert verri en árið 2006 og þá varð ekki uppi fótur og fit. En vissulega og þrátt fyrir allt hefur ekki verið mikið í umræðunni að sveiflur í PISA-prófunum eru algengar, ekki aðeins á Íslandi heldur víða annars staðar, og geta verið margvíslegar ástæður fyrir því. Ég ætla ekki að gagnrýna það að við getum ekki staðið okkur betur í læsi. Það er eitthvað sem við þurfum að taka betur utan um en við höfum gert. Þessi aðferð ráðherrans til þess sætti mikilli gagnrýni. Ég spyr hvernig átakinu miðar og hversu lengi það varir.

Það kemur fram í þessum svörum að það er til fimm ára. Kannski er of snemmt að segja til um hvort útlit er fyrir að markmið þess náist en mig langar samt að forvitnast um hvernig gengið hefur, því að það hefur verið töluvert í umræðunni að ráðnir hafi verið inn verkefnisstjórar til að sinna því og þeir hafi horfið frá störfum. Það er ástæða til að spyrja ráðherra hvort verkefnið hafi haldið dampi og hvort það nýtist þeim sem eru úti á akrinum með þeim hætti sem gert var ráð fyrir.

Mig langar í því sambandi að nefna að farið var í læsisátak í grunnskólum Reykjanesbæjar, Sandgerðis og í Garði árið 2011 sem skilaði miklum og góðum árangri. Þar var ekki einungis tekið það sem gekk vel hér heima heldur var óskað eftir því að þetta væri kynnt í háskólaráði alþjóðasamskipta í Stokkhólmi, þangað sem þær fóru sem að átakinu stóðu.

Hér er vitnað til þessa svo og Háskólans á Akureyri og mig langar að bæta við þessar spurningar og spyrja ráðherra (Forseti hringir.) hvort hann telji ekki að við getum náð sambærilegum árangri með miklu minni tilkostnaði (Forseti hringir.) en þetta verkefni hans leggur til með því að nýta þær stoðir sem við höfum nú þegar í samfélaginu.