145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

íslenskt táknmál og stuðningur við það.

773. mál
[17:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mig langar aðeins til þess að fylgja því eftir sem fram kom í máli hæstv. ráðherra undir lok svarsins, þ.e. þeim þætti sem lýtur að úttekt á menntun án aðgreiningar sem nú er í undirbúningi í samvinnu ráðuneytisins og Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt. Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra telji að þar sé um að ræða fullnægjandi úttekt að því leyti sem lýtur að málumhverfi og máluppeldi. Það er jú þannig þegar við erum að tala um hóp sem þarf að reiða sig á annað tungumál í daglegu lífi og menntun að þá þurfum við að huga sérstaklega að ríkulegu málumhverfi, málörvun og málfyrirmyndum. Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir bæði faglega og af eigin reynslu hversu mikilvægt það er að börn alist upp í öflugu málumhverfi. Þessi þáttur er mér vitanlega ekki undir í þeirri úttekt sem hæstv. ráðherra vísar til. Mér er kunnugt um að Félag heyrnarlausra hafi farið þess á leit við ráðherra að hann beiti sér sérstaklega fyrir því að úttekt á námsframboði sem stendur þessum hópi til boða fari fram í ljósi sérstöðu hópsins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái flöt á því að þessi þáttur verði skoðaður sérstaklega, e.t.v. til viðbótar við þá úttekt sem þarna er til skoðunar, eða með einhverju öðru móti í ljósi sérstöðu málsins.

Hæstv. ráðherra vísaði sérstaklega til málnefndar um íslenskt táknmál sem hefur fengið aukið fjármagn en málnefndin hefur ítrekað og í árlegum skýrslum vakið athygli á stöðu barna sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta og lýst áhyggjum af því að þessi börn hafi ekki aðgang að táknmálssamfélagi og málið (Forseti hringir.) sé ekki kennslumál á sama hátt og íslenskan. Ég vona að ég eigi liðsmann í hæstv. ráðherra í skilningnum á því að hér þarf að gera miklu, miklu betur en við erum að gera.