145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Heimildarkvikmynd Óskars Gíslasonar um björgunarafrekið við Látrabjarg veturinn 1947 skaust upp í huga minn í gær þegar ég horfði á mótmælin hér úti á Austurvelli. Myndin lýsir því þegar íslenskir björgunarmenn unnu frækilegt afrek við björgun 12 skipbrotsmanna af breska togaranum Dhoon í aftakaveðri og hlutu þeir verðskuldaðan heiður, bæði hér heima og erlendis. Þessir menn lögðu líf og limi í stórkostlega hættu við að bjarga erlendum mönnum sem voru í hættu staddir. Þessi mynd er í uppáhaldi hjá mér því að mér finnst hún lýsa svo vel þætti í íslenskri þjóðarsál sem ég held að sé raunverulegur og ég er svo stoltur af. Viljinn til að rétta þeim hjálparhönd sem eru í hættu staddir og stórmennskan til að spyrja ekki um uppruna þess sem hjálpar er þurfi. Og kjarkurinn til að aðstoða þó að því kunni að fylgja einhver áhætta.

Herra forseti. Ég vil hvetja þá sem mæla gegn því að við Íslendingar tökum vel á móti hælisleitendum og flóttafólki og veitum því skjól til að horfa á kvikmyndina um björgunarafrekið við Látrabjarg. Og ég hvet þá til að hugleiða svolítið hvað þessi mynd og þeir hugrökku vestfirsku björgunarmenn sem þar komu við sögu segja okkur um hvað það er að vera Íslendingur, hverju við eigum að vera stolt af í sögu okkar og menningu og varðveita. Lítilmennska og nirfilsháttur gagnvart bágstöddu fólki er svo sannarlega ekki hluti af því.

Herra forseti. Þeim sem sjá ofsjónum yfir kostnaði sem fylgir því að tryggja hælisleitendum mannréttindi vil ég benda á að öll mannréttindi kosta. Það kostar til að mynda mikið að vernda eignarréttinn, stór hluti verkefna löggæslu og lögreglu, dómskerfis, snýst um það. En það kemur allt til baka. Fjölmargar rannsóknir sýna nefnilega að þjóðir sem verja mannréttindi best eru líka almennt best settar efnahagslega. Það á við um öll mannréttindi. Og það er engin tilviljun.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna