145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég er stolt af árangri Sjálfstæðisflokksins á undanförnum þremur árum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið að því heils hugar að bæta hag landsmanna allra. Hér hefur orðið kaupmáttaraukning. Hér er verðbólga í sögulegu lágmarki. Hér hafa átt sér stað launahækkanir og hér hafa átt sér stað skattalækkanir. Tollar hafa verið afnumdir og vörugjöld. Það hefur verið lagt meira til velferðar- og heilbrigðismála en nokkurn tímann áður. Á síðustu árum hafa verið settir 27 milljarðar á ári til viðbótar því sem var árið 2013 til almannatrygginga.

Í gær fór fram kynning á frumvarpi sem er komið inn í Alþingi og lýtur að því að aðstoða það unga fólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign. Þetta er sérlega mikilvægt frumvarp fyrir unga fólkið. Það hvetur til sparnaðar og það hvetur til þess að huga að framtíðinni. Ef vel er á spöðum haldið getur hver einstaklingur sparað allt að 5 millj. kr. með séreignarlífeyrisframlagi sínu og atvinnurekanda. Þegar viðkomandi ákveður að taka þetta út á tíu ára tímabili er það skattfrjálst. Þetta er heldur betur búbót fyrir það unga fólk sem hefur ekki komist úr foreldrahúsum vegna þess að það hefur ekki getað staðist greiðslumat og fyrir það unga fólk sem hefur verið á leigumarkaði og greitt himinháa leigu, jafnvel tugum þúsunda hærri á mánuði heldur en það sem það mundi vera að borga af eigin eign, ef það hefði tækifæri til þess.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna