145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, er henni hjartanlega sammála og þakka henni fyrir að koma inn á stöðu ungs fólks í ræðu sinni áðan.

Það sem ég vildi ræða á þessum stutta tíma er að í dag birtir Jón Steinsson hagfræðingur grein í Fréttablaðinu þar sem hann fer yfir hvernig Færeyingar hafa boðið upp veiðiheimildir sem var gert núna í tilraunaskyni fyrst. Þar var farin markaðsleið við úthlutun veiðiheimilda. Ákváðu Færeyingar að gera tilraun með uppboð á litlum hluta veiðiheimilda eða um 10%. Jón Steinsson segir frá því að uppboðin tókust mjög vel, færeysk stjórnvöld fengu hátt verð fyrir veiðiheimildirnar ef verðið er borið saman við þau veiðigjöld sem íslenskar útgerðir greiða í dag. Fyrir þorskkvóta í Barentshafi fengu Færeyingar að meðaltali 3,42 danskar krónur á kíló sem gerir u.þ.b. 62 íslenskar krónur. Til samanburðar munu íslenskar útgerðir greiða rúmar 11 kr. í veiðigjald af þorskkvóta á næsta fiskveiðiári. Munurinn er því fimmfaldur.

Ég vil nefna það og halda því til haga að þingflokkur Bjartrar framtíðar lagði áherslu á þessa leið þegar við vorum á síðasta ári að fjalla um makrílkvóta. Þá var verið að baksa við það hvað ætti að gera við þessar nýju veiðiheimildir. Við vildum fara nákvæmlega þessa leið, prófa okkur áfram með markaðsleiðina og færa þennan kvóta í uppboð. Staðan er samt sú að ákveðið var að gera það ekki og ég tel að við höfum orðið (Forseti hringir.) af umtalsverðum fjármunum þess vegna. Við horfum bara á það að veiðigjöld eru núna áætluð um 4 milljarðar kr.


Efnisorð er vísa í ræðuna