145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að segja að mér þykir stórundarlegt að ekki hafi verið tekið tillit til þess að það væri mögulega kostnaðaraukandi fyrir ríkissjóð að innleiða fyrir fram greidda styrki, sér í lagi þar sem við sjáum þessa þróun gerast mjög hratt í Danmörku. 1.500 manns koma til náms í Danmörku á milli ára þannig að ég held að þetta sé eitthvað sem þurfi að taka verulega til umhugsunar. Það eru fleiri námsgreinar sem eru kenndar á ensku en íslenska fyrir erlenda stúdenta í Háskóla Íslands, þar með talið mikið sem er í gangi á jarðfræðibraut í Háskóla Íslands og fleira í þeim dúr, miðaldabókmenntir svo eitthvað sé nefnt. Þetta er allt saman eitthvað sem er kennt á ensku líka þannig að ég held að það sé ekki rétt, ég held að þetta sé eitthvað sem virkilega þurfi að taka tillit til þegar farið er í svona umfangsmikla breytingu, hvort þessi fyrir fram greiddi styrkur muni í raun vera kostnaðaraukandi fyrir ríkissjóð af því að erlendur ríkisborgari gæti mögulega komið hingað til lands og fengið styrkinn, réttilega. Það þarf einfaldlega að gera (Forseti hringir.) kostnaðarmat hvað þetta efni varðar.