145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði farið vel á því að hæstv. ráðherra hefði látið slíka greiningu fylgja frumvarpinu sem hann hefur verið að vinna, en mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra, því að hann orðaði það áðan að hann væri opinn fyrir breytingum hvað varðar doktorsnám. Það hefur auðvitað líka vakið mikla gagnrýni að ætlunin sé að þrengja möguleika doktorsnema. Vill hæstv. ráðherra útskýra hvaða breytingar hann er að tala um í ljósi þess að úthlutunarhlutfall veittra styrkja til doktorsnáms er mjög mismunandi. Ég sá t.d. tölur fyrir svið hugvísinda á síðasta ári þar sem 17% verkefna sem metin voru hæf til doktorsnáms, sem sagt nemendur sem eru metnir hæfir til að stunda doktorsnám, 17% þeirra fengu styrk. Er þá hæstv. ráðherra að leggja til að það verði tímabundin breyting að doktorsnám verði lánshæft eða liggur fyrir einhver áætlun um að doktorsnám verði launað sem virðist hafa verið grunnforsendan í því þegar frumvarpið var samið, að til samræmingar verði að gera ráð fyrir að það yrði launað? Getur hæstv. ráðherra útskýrt þetta fyrir okkur?