145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágæt athugasemd og málefnaleg en svarið við henni er þetta: Það er ekki hægt að horfa á vaxtastigið eitt og sér og einangrað, heldur verður um leið að horfa á launastigið, launaþróunina og hlutfall heildarlauna sem fer til greiðslu í afborgunum. Það er sú tala sem skiptir máli og ég veit að hv. þingmaður þekkir það að ef hann bæri saman t.d. launaþróun á Íslandi síðustu fjögur, fimm árin og launaþróun í Skandinavíu munar þar ansi miklu á. Þess vegna er það spurningin um ráðstöfunartekjurnar og hlutfall afborgana af ráðstöfunartekjum sem um er að ræða. Og, já, ég held að skynsamlegt sé að gera þetta, þetta er það sem stúdentahreyfingarnar hafa kallað eftir, þetta er það sem við höfum alla tíð kallað eftir. Með því að festa þetta í 2,5% og setja þakið þar, og ég hef reyndar bent á að það væri kannski skynsamlegt að hafa það sem þak, að ef lántökukostnaður ríkisins fer neðar sé hægt að nýta það, þá verð ég að segja að þetta eru hagkvæmustu lánin sem standa til boða og ég tel að það sé algjörlega réttlætanlegt að leggja af stað með þetta fyrirkomulag í ljósi þess sem ég sagði hér áðan, sem snýr að samhengi milli annars vegar vaxtastigsins og hins vegar launaþróunar.