145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held ekki að kaupmáttur á Íslandi sé hærri en gerist til að mynda í Svíþjóð eða a.m.k. ekki svo miklu að menn standi undir að því er mér sýnist vera rúmlega 13 sinnum hærri vöxtum heldur en af sænsku námslánunum. Nú eru vextir þar auðvitað óvenjulega lágir nú um stundir en væru kannski upp undir 2% að jafnaði. Engu að síður væru þá vextir hér kannski fimm sinnum hærri en þar er og þess vegna hlýtur maður að spyrja: Mun ráðherrann ljá máls á því að í þinglegri meðferð verði settar einhvers konar tekjutengingar inn við endurgreiðslurnar þannig að fólk sem ekki nær miklum auknum kaupmætti við að mennta sig, fólk sem er að mennta sig t.d. til umönnunarstarfa eða til starfa í menntakerfinu hjá hæstv. ráðherra, að það fái ekki þessa gríðarlega þungu vaxtabyrði á sig að fullu heldur verði að einhverju leyti tekið tillit til tekna í endurgreiðslunum? Telur ráðherrann að það sé eitthvað sem þingið geti skoðað að gera til betrumbóta á málinu?