145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili áhuga ráðherrans á að finna skynsamlega lausn í þessu máli. Ég held að það eigi að vera verkefni okkar í þinginu. Hún getur hins vegar ekki falist í því að auka álögur á þá sem hafa þurft að taka lán hingað til til þess að veita styrki til þeirra sem hafa sleppt því að taka lán hingað til vegna þess að þeir hafa ekki þurft á þeim nauðsynlega að halda til framfærslu. Þeir styrkir eru búnir til til þess að auka framleiðni í kerfinu. Ég skil alveg það markmið og ég deili því alveg með ráðherra, en það er eðlilegt að ríkið borgi alfarið fyrir þá framleiðniaukningu. Síðan skulum við fara yfir ýmsa þætti sem eru auðvitað ámælisverðir í kerfinu og við höfum mörg gagnrýnt á undanförnum árum og áratugum, eins og hvernig það hvetur til skuldsetningar, eins og það sem réttilega kemur fram í frumvarpinu að það leiðir til þess að styrkurinn fellur mjög misjafnlega til og að þeir sem eru búnir að fara í dýrt og langt skólagjaldanám geti eiginlega haldið áfram í slíku námi í fullvissu þess að þeir muni ekki borga það.

Grundvallaratriðið finnst mér þurfa að vera að það verði samstaða um að ríkið borgi til fulls námsstyrkinn.