145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:48]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur deilir þeirri skoðun að það hafi verið löngu tímabært að færa námslánakerfið íslenska til betra horfs. En það frumvarp sem hér liggur fyrir er ekki sú bót sem maður hefði viljað sjá á því kerfi sem við höfum um námslán og námsstyrki. Í frumvarpinu er vegið að þeim gildum sem hingað til hafa verið grundvöllur íslenskrar menntastefnu um menntun fyrir alla og frelsi til menntunar. Ég vil gjarnan byrja á að rifja það upp að allt frá því farið var að reka formlega skóla á Íslandi hefur verið við lýði nokkurs konar samfélagssáttmáli um gildi menntunar og hlutverk menntastofnana. Jón Sigurðsson forseti leit á stofnun þjóðskóla sem mikilvægan hluta baráttunnar fyrir fullveldi. Sú barátta stendur augljóslega enn þótt með öðrum hætti sé en fyrr á tíð.

Yfirskrift menntastofnana hefur lengi verið „mennt er máttur“, því að Íslendingar hafa trúað á menntun sem möguleika til lífsgæða. Við menntuðum þjóðina út úr torfkofunum og inn í nútímann frá örbirgð til allsnægta, enda er menntun, þekking og kunnátta farsælustu vopn í lífsbaráttu hverrar þjóðar rétt eins og hvers einstaklings. Við höfum þar af leiðandi verið stolt af því að vera menntuð þjóð, læs og skrifandi, og fær um að tileinka okkur alla þá þekkingu sem æðstu menntastofnanir hafa haft fram að bjóða hérlendis og erlendis. Við höfum verið stolt af því að á Íslandi væri menntun eitthvað sem væri öllum ætlað.

Þessi samfélagssáttmáli sem ég vil kalla svo hefur líka falið í sér afdráttarlausa kröfu Íslendinga um frelsi til menntunar. Í því er fólgin afstaða til manngildis sem miðar að því að minnka aðgreiningu á borð við stéttaskiptingu og auka þess í stað aðgengi allra óháð efnahag, kyni, búsetu o.fl., þ.e. námsgáfur, áhugi, ástundun og vilji séu hinir ráðandi þættir varðandi möguleika fólks til náms en ekki efnahagur eða þjóðfélagsstaða. Á grunni þeirrar hugmyndafræði voru framhaldsskólarnir t.d. opnaðir fyrir stærri hópum þegar fjölbrautakerfinu var komið á og stefnan sett á það að gefa sem flestum kost á að afla sér þekkingar á grundvelli áhuga og námsgetu.

Menntun er líka og á að vera mannréttindi. Á þeim grunni var strax árið 1928 farið að veita námsmönnum lán á vegum lánasjóðs stúdenta við Háskóla Íslands. Þegar fyrstu lögin voru sett 1952 um lánasjóð stúdenta var kveðið á um það að hinn nýi sjóður skyldi veita námslán í meira mæli en áður svo þau dygðu stúdentum til framfærslu en væru jafnframt á svo góðum kjörum sem stúdentum væru viðráðanleg. Þarna var tónninn sleginn varðandi félagslegt hlutverk lánasjóðs námsmanna, þ.e. að tryggja námsmönnum framfærslu og taka tillit til greiðslugetu.

Þá skulum við líta aðeins á þetta frumvarp sem er til umræðu, því að mér finnst eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar að hér sé verið að vega að þessum grunngildum um menntun fyrir alla og frelsi til menntunar. Eitt skýrasta dæmið um það er sú breyting sem er í frumvarpinu að lána ekki vegna doktorsprófs.

Nú hefur hæstv. ráðherra sagt í ræðu sinni að hann sé þess fýsandi að þingið breyti þessum ákvæðum og færi þau aftur til núverandi horfs. Það er í sjálfu sér ánægjuefni að menn skuli hafa séð að sér varðandi það, því að möguleikar manneskjunnar til að afla sér þekkingar og fullnuma sig af eigin rammleik hefðu bara verið út af borðinu ef þessi breyting hefði átt sér stað. Hver er eiginlega bættari með því að skerða möguleika fólks til æðstu menntunar og skerða frelsi sem hingað til hefur verið aðalsmerki íslenskrar menntastefnu? Ég vona að a.m.k. þeirri breytingu verði komið á ef frumvarpið fer í gegn, Alþingi sé sammála mér og ráðherranum um að hverfa þurfi frá þeirri ósvinnu að ætla að hætta að styrkja doktorsnema til náms.

Mér finnst reyndar að þau áform sem birtast í frumvarpinu, þó að menn hafi séð að sér, beri merki um ýmsar tiltektir núverandi ríkisstjórnar í menntamálum, þessa áráttu að hefta möguleika fullorðins fólks til náms, t.d. með því að vísa 25 ára fólki og eldra út úr framhaldsskólakerfinu og nú með þessu sem birt var á prenti að afnema námslán til doktorsnema, en líka að takmarka námslánatímann við 56 ára aldur og heildarupphæð námslána við 15 milljónir. Þetta ber allt að sama brunni, að verið sé að loka skólakerfinu, afmarka það fyrir þröngan tilsniðinn hóp, sem hægri mönnum finnst að eigi að vera fyrir einhvers konar prótótýpur. Skerðingar, þrengingar, aðgreining og lokun. Þetta eru því miður kennileiti þeirrar hugmyndafræði. Synd er að horfa upp á það.

Ég vil t.d. nefna konur með börn sem oft gera hlé á námi þar til börn eru komin af höndum. Fólk á landsbyggðinni eða fólk sem af ýmsum ástæðum hefur ekki átt kost á hefðbundinni skólagöngu er dæmi um hópa sem koma mjög illa út úr þeim breytingum sem verið er að boða í frumvarpinu. Ég spyr: Er einhver bættari með því að loka dyrum fyrir því fólki og loka fólk inni í aðstæðum sem það vill komast út úr? Er samfélagið einhverju bættara? Að sjálfsögðu ekki.

Ég skal játa það eins og ég sagði í upphafi máls míns að núverandi námslánakerfi er um margt gallað. Það var vissulega þörf á að gera á því breytingar. Eitt af því jákvæða sem ég vil nefna í þessu frumvarpi er sú breyting að endurgreiðslukrafa falli niður við andlát lántaka. Því mátti nú sannarlega breyta. Það er líka löngu tímabært að taka upp almenna námsstyrki, eins og Samfylkingin hefur áður lagt til. En þá þarf líka að tryggja að það sem gefið er með annarri hendi sé ekki hrifsað úr höndum næsta manns og síðan tekið brott með hinni hendinni.

Nú lítur út fyrir að vaxtabyrðin muni verða mótvægi við styrkina og að aðrir lánþegar muni með því móti greiða fyrir styrkþegana, eins og kom til tals hér í andsvörum áðan. Það er auðvitað ekkert sanngjarnt við það að þeir sem þurfa mest á lánum að halda til framfærslu séu með lánakjörum sínum að fjármagna almenna styrki.

Lítum þá aðeins á jöfnunarhlutverk námslána. Í frumvarpinu er stigið það skref að afnema tekjutengingu á endurgreiðslu námslána og boðað að allir námsmenn sem á annað borð falla undir þá skilgreiningu að þeir eigi rétt á námsaðstoð skuli fá styrk að upphæð 65.000 kr. á mánuði í allt að 45 mánuði, eða tæpar 3 millj. kr. En ekki er gerður greinarmunur á því hvort námsmenn þurfa á þessum styrk að halda eða ekki. 65.000 kr. á mánuði geta komið sér vel fyrir nemendur sem búa í foreldrahúsum og hafa þar frítt fæði og húsnæði og geta notað þá peninga sem vasaaura, en hins vegar er ólíku saman að jafna aðstæðum slíkra nemenda og þeirra sem koma utan af landi eða barnafólki sem þarf að búa í leiguhúsnæði og framfleyta fjölskyldu. Þannig verður til ójafnræði milli samfélagshópa. Þetta gæti orðið afdrifaríkt og er til þess fallið að ýta undir mismunun.

Það eru greinilega fleiri en ég sem hafa áhyggjur af stúdentum af landsbyggðinni. Ég vil fá að vitna, virðulegi forseti, í umsögn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem hafa bent á það að hvergi í frumvarpinu né í lögskýringargögnum sé að finna skilgreiningu á hvað felist í tækifæri til náms „án tillits til efnahags“ eins og það er orðað. Það virðist helst að átt sé við námsmenn sem eins er ástatt fyrir að þeir eigi rétt á sams konar aðstoð, þ.e. allir námsmenn í foreldrahúsum geti fengið sams konar aðstoð eða allir námsmenn í leiguhúsnæði geti fengið sams konar aðstoð.

Það sem er hins vegar brogað hér er sú staðreynd að hluti námsmanna á höfuðborgarsvæðinu og t.d. á Akureyri þar sem er líka háskóli getur mögulega komist í gegnum nám án þess að taka námslán, t.d. þeir sem búa í foreldrahúsum, en það mundi aldrei ganga upp hjá námsmönnum utan þessara svæða þar sem möguleikinn til að komast skuldlaust frá námi er augljóslega háður efnahag. Það er því alveg ljóst að nemendur af landsbyggðinni munu hljóta að skulda hærri upphæðir við námslok en námsmenn af höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur auðvitað áhrif á námsval. Þetta hefur áhrif á það hvernig fólk velur sér búsetu, bæði foreldrar og ungir námsmenn.

Það má t.d. benda á að íbúum á Norðurlandi vestra á aldrinum 0–50 ára hefur fækkað um tæplega 1.700 manns á síðastliðnum 20 árum, á sama tíma og námsmönnum hefur fjölgað verulega. Það er ekki ólíklegt að þetta misrétti til náms óháð efnahag skýri hluta af þessari fólksfækkun og augljóst að það misrétti mun aukast enn frekar við þær breytingar sem þetta frumvarp boðar.

Síðan er því haldið fram í frumvarpinu að verið sé að færa íslenska námslánakerfið nær því sem þekkist á Norðurlöndum. Ef staðreyndirnar eru skoðaðar í samhengi við það þá fær sú fullyrðing engan veginn staðist. Það er ekki í anda norrænu fyrirmyndarinnar að námsmenn fái allir sama styrkinn hvort sem þeir hafa þörf fyrir hann eða ekki.

Síðan er mjög hætt við því að greiðslubyrði námslána verði mjög þung ef frumvarpið verður samþykkt. Afborganir af öllum námslánum umfram 5 millj. kr. munu þyngjast eftir breytingu. Fram hefur komið að flest námslán í dag séu nálægt 5 millj. kr. Í stað ríflega 11.000 kr. mánaðarlegrar greiðslubyrðar af slíku láni yrði endurgreiðslubyrðin 17.900 kr. á mánuði og hækkandi með hækkun láns allt upp í 53.700 kr. á mánuði fyrir 15 millj. kr. lán.

Samkvæmt frumvarpinu byrja lánin strax að safna vöxtum og verðbótum frá fyrsta degi en ekki þegar afborganir hefjast eins og nú er. Þetta hefur auðvitað áhrif til þyngingar. Í stað verðtryggingar með 1% vöxtum koma verðtryggð lán með 3% vöxtum sem við núverandi aðstæður í íslensku hávaxtaumhverfi þýðir enn þyngri byrði eins og var rætt hér í andsvörum áðan.

Námslánatímabilið er stytt. Endurgreiðslutíminn er styttur. Vextirnir eru hækkaðir og tekjutengingin afnumin. Með öðrum orðum, verið er að færa sjóðinn fjær hinu félagslega hlutverki sem hefur verið grunntónninn í rekstri hans allt frá stofnun. Verið er að færa hann nær því að vera einhvers konar almenn lánastofnun. Við þurfum ekki fleiri almennar lánastofnanir. Við þurfum manneskjulegar lánalindir þar sem tekið er tillit til lífsaðstæðna fólks í námi. Við þurfum jöfnunartæki. Menntun á að vera mannréttindi. Hún er lykill að velferð þjóðar. Þær þjóðir sem hafa náð lengst í hagsæld og velferð hafa varið hæstum fjármunum til menntunar, rannsókna og vísinda. Krafan um frelsi til náms er ófrávíkjanleg. Hún er jafn ófrávíkjanleg og krafan um atvinnufrelsi og frelsi til athafna og tjáningar. Þetta frumvarp, virðulegi forseti, svarar því miður ekki þeirri kröfu.