145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:05]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi doktorsnámið fagna ég því að ráðherrann hafi séð að sér í því máli og telji að ekki sé rétt að skerða möguleika doktorsnema til námslána á meðan þeir eru í sínu námi. Það er grundvallaratriðið. Það fyrirkomulag sem hefur verið við lýði, að doktorsnemar geti verið bæði á styrkjum og lánum, er farsælt en það er af og frá að það geti orðið nokkrum til bóta að vísa doktorsefnum á framfærslu rannsóknasjóða og hagsmunaaðila eingöngu eða nánast eingöngu og skerða möguleika þeirra til að taka sér þann tíma sem þeir þurfa til doktorsrannsókna.

Varðandi samanburðinn við Norðurlöndin er það bara þannig að það sem gefið er í skyn í frumvarpinu um að hér sé verið að færa hið íslenska námslánakerfi að því sem þekkist á Norðurlöndum fær ekki staðist skoðun. Í Noregi stendur nemendum í háskóla til boða að fá námslán og þeir geta að námi loknu sótt um að allt að 40% lánsins verði fellt niður og breytt í styrk. Það eru sett ákveðin skilyrði fyrir þessu. Í Danmörku eru styrkirnir misháir eftir aðstæðum námsmanns, eftir því hvort fólk býr í foreldrahúsum eða ekki. Sömu sögu er að segja frá Finnlandi þar sem tekjur foreldra og fleiri geta haft áhrif á styrkfjárhæðir og í Svíþjóð fara styrkir að hluta eftir aðstæðum námsmanna. Það er alls ekki í anda norrænu fyrirmyndarinnar að námsmenn fái allir sama styrkinn, hvort sem þeir hafa þörf fyrir hann eða ekki.

Við skulum svo sjá hvað setur. Nú fer málið til hv. allsherjar- og menntamálanefndar þingsins. Þar munu sjálfsagt koma fram margar athugasemdir og ábendingar en óbreytt finnst mér að frumvarpið geti ekki með neinu móti farið í gegnum þingið.