145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni um eitt atriði, að einhvers konar sambland af lánum og styrkjum sé æskilegt kerfi hvað varðar doktorsnámið. Það er ekki það fyrirkomulag sem við þekkjum almennt erlendis. Flest lönd hafa það þannig að þau lána ekki til doktorsnámsins heldur eru veittir styrkir vegna þess að þetta er það langt nám og menn eru ekki að skuldsetja sig ofan á grunn- og mastersnám sitt inn í doktorsnámið heldur fara í nám á styrkjum. Þannig er almenna reglan. Ég held að það sé það sem við eigum að stefna á og það sem ég sagði í upphafsræðu minni er nákvæmlega þetta. Þangað eigum við að stefna með m.a. þeirri ákvörðun sem við tókum um rannsóknasjóðinn, að tvöfalda hann. Ég minni aftur á þá umræðu sem varð sumarið 2013, um mikilvægi rannsóknasjóðsins vegna doktorsnámsins. Það kom alveg skýrt fram þá og ég held að það hafi ekkert breyst hvað það varðar.

Síðan vil ég segja eitt af því að hv. þingmaður nefndi að það væri hægt að fá niðurfellt í Noregi upp undir 40% af láninu, mismunandi þó, að um 85% nemenda á Íslandi eru með námslán 7,5 milljónir og lægra. Styrkurinn er upp undir 3 millj. kr., 2.950.000 kr. Ef við horfum bara á þau hlutföll blasir við sú staða.

Virðulegi forseti. Það er ekki til neitt sem heitir eitt norrænt námslánakerfi, ekkert frekar en að það sé til eitthvert eitt norrænt velferðarkerfi. Hvert og eitt land er með sín sérkenni, t.d. göngum við miklu lengra en Norðurlöndin gera hvað varðar námslán til skólagjalda heldur en almennt gerist. Það á sér sínar sögulegu rætur sem um margt hafa reyndar breyst hvað varðar t.d. möguleika til að sækja í dýrustu einkaskóla í heimi sem við nálgumst öðruvísi en Norðurlöndin. Þá má heldur ekki gleyma því að íslenskir stúdentar hafa mjög gott aðgengi að háskólum á Norðurlöndunum. Auðvitað hlýtur það að vera til sérstakrar umhugsunar fyrir okkur.

Samantekið, virðulegi forseti, tel ég í ljósi þess hvernig greiðslubyrðin mun þróast, hvaða áhrif það hefur — ef við horfum til þess sem mun létta greiðslubyrðina hjá yfirgnæfandi hluta stúdenta vegna kerfisbreytinga einna og sér og síðan vegna samspils við önnur kerfi eða ef menn (Forseti hringir.) taka lán sem nemur 100% framfærsluviðmiðinu, þá koma allir hóparnir betur út. Það tel ég að skipti höfuðmáli og þess vegna er ég ekki sammála því að hér sé með nokkrum hætti vegið að möguleikum manna til að sækja nám.