145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að biðjast velvirðingar gagnvart hv. þingmanni, ég ætlaði alls ekki að hræða þingmanninn með lengd þessarar úttektar. Það er rétt að taka fram að í þessari 180 síðna úttekt er heilmikið af myndum, reyndar stór hluti. Textinn er ekki 180 síður.

Það breytir ekki því að myndirnar skipta miklu máli vegna þess að þar er verið að skoða greiðslubyrðina eftir námshópum og eftir starfshópum, eftir tekjum og hvernig þetta kemur út. Það skiptir svo miklu máli. Eins finnst mér að það þurfi að hafa í huga sem hefur verið bent á í opinberri umræðu að þegar við spilum saman námslánakerfinu og síðan barnabótum og meðlagsgreiðslum og öðru slíku, ef við horfum til þessara þátta og þess að stúdentar taki lán fyrir 100% framfærslu, sem hlýtur að vera markmiðið, þá munu hóparnir koma betur út. Það er það sem skiptir máli, og snýr m.a. að því sem hv. þingmaður nefndi sem er staða þeirra sem eru í húsaleigu og koma utan af landi. Hvort sem þeir koma utan af landi eða eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og eru samt sem áður í húsaleigu þá er svo sem sama staðan hvað það varðar. En þær tölur sem ég nefni hérna benda til þess að þessir aðilar verði í betri stöðu en áður. Auðvitað er það svo að þegar námslánin eru komin yfir 7,5 milljónir breytist staðan en yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem við erum að tala um t.d. í Háskóla Íslands, og það er það sem greining stúdenta við Háskóla Íslands bendir á, kemur betur út úr þessari breytingu.

Hvað varðar síðan það sem hv. þingmaður nefndi um það hvenær endurgreiðslur hefjast vil ég nefna að okkar kerfi verður þá þannig að þær hefjast ári eftir að námi lýkur. Í Noregi er það sjö mánuðum eftir að námi lýkur, í Danmörku 1. janúar eftir lokanámsár og í Svíþjóð sex mánuðum eftir að síðasta námsaðstoðarári lýkur. Með öðrum orðum, það kemur skýrt fram hér, er ekkert eitt system á þessu en við verðum í það minnsta með rýmri tíma hvað þetta varðar en aðrir. (Forseti hringir.) Ég kem að öðru síðan í seinna andsvari.