145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er gott að þetta er myndræn framsetning að stórum hluta, þessar 180 síður, en það er líka vert að vekja athygli á því að það er hægt að leika sér töluvert með tölur í myndrænni framsetningu. Gagnrýnin fólst kannski í því að ef ráðherrann telur að þarna séu gríðarlega mikilvægar upplýsingar um einmitt það sem kallað hefur verið svolítið eftir, þ.e. áhrif á mismunandi tekjuhópa, hefði verið mjög mikilvægt að fá það fram með frumvarpinu beint inn í umræðuna þannig að við gætum tekið það með frá fyrsta degi. Í ljósi þess að hann nefnir líka barnabætur og vaxtabætur sem hafa verið lækkaðar, þá skulum við ekki gleyma því að tekjuhóparnir, þ.e. þeir sem fá barnabætur, eru færri en áður. Það kemur mér verulega á óvart ef niðurstaðan reynist sú að þrátt fyrir að færri fái vaxtabætur, færri fái barnabætur, þrátt fyrir hærri vexti á lán sem hér á að veita, sé þetta kerfi betra. Það passar bara ekki alveg í mínum kolli en það getur vel verið að það komi í ljós þegar við förum yfir þetta, fáum þessar tölur upp og fáum til okkar gesti og kannski aðrar umsagnir.

Það hefði líka verið æskilegt í ljósi svona viðamikillar umsagnar að hún hefði komið fram hjá ráðherra og þá væri í rauninni verið að bregðast við henni líka í gagnrýni annarra, aðrar umsagnir hefðu byggst á því að ef þessir útreikningar hefðu fylgt. Það er kannski það sem maður hefði viljað sjá, en við eigum eftir að sjá hvernig þetta kemur út. Og ég var ekki að tala um endurgreiðslutímann, þ.e. hvenær byrjað er að endurgreiða, heldur fyrst og fremst að vaxtastigið byrjar að tikka inn strax ólíkt því sem gerist núna. (Forseti hringir.) Við erum að búa til vexti sem ég tel að við þurfum ekki að gera.