145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað snúa þau gögn sem stúdentaráð Háskóla Íslands hefur unnið að þeim nemendahópi sem þar er en hann endurspeglar að stórum hluta það sem við þekkjum á Íslandi. Það eru ekki allir sem koma betur út úr þessu kerfi. Ég hef aldrei sagt það og mun aldrei segja en ég bendi á að stór hópur, yfirgnæfandi meiri hluti, mun koma betur út þegar kemur að endurgreiðsluhlutfallinu, sérstaklega hópar sem ég veit að við hv. þingmaður horfum til. Þetta getur nefndin rætt í þaula og ég veit að það verður gert. Ég geri mér líka grein fyrir því að hér er um að ræða flókið mál og flókna útreikninga. Þar af leiðandi er eðlilegt að það kosti svolitla yfirlegu að fara yfir útreikningana, ég geri mér grein fyrir því, en þeir eru þó ekki flóknari en svo að það er alveg hægt að ná utan um þá.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna varðandi námsmenn erlendis er að samkvæmt skýrslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna frá árinu 2015 eru um eða yfir 2.000 lántakendur hjá lánasjóðnum við nám erlendis á hverju ári. Þar af er minna en helmingur, um 950 manns, sem tekur lán fyrir skólagjöldum. Það þarf auðvitað að horfa á þessa umræðu (Forseti hringir.) þegar við erum að velta fyrir okkur áhrifum breytinganna sem hér eru lagðar til á hópinn sem er í námi erlendis.