145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:34]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Mig langaði aðeins að koma inn af því að ég veit að hv. þingmaður er í nefndinni og hún fór ágætlega yfir ýmsa þætti frumvarpsins sem þarf að skoða. Mér finnst grunnhugsunin í frumvarpinu ágæt, þ.e. að reyna að fá yngra fólk til þess að fara beint í háskólanám úr framhaldsskóla, reyna að klára sem fyrst og allt það og það gefur þeim hópi tækifæri á því að koma jafnvel skuldlaus út úr háskólanámi ef þau hafa haft kost á því að búa heima hjá foreldrum sínum. Síðan er hins vegar hópur sem á engan kost á því. Hann mun þá búa við aðeins lakari kjör. Svo er það sá hópur sem ég hef raunverulegar áhyggjur af og það eru þeir sem koma seinna inn í háskólanám og munu þá sitja uppi með gríðarlega þunga greiðslubyrði, vegna þess að ef fólk þarf ekki að vera orðið nema 35 ára þegar það lýkur fimm ára háskólanámi til að vera komin með það þunga greiðslubyrði er spurning hvort það borgi sig fyrir það að gera þetta, ekki nema fólk fái þeim mun hærri laun. Það er sá hluti frumvarpsins sem ég hef mjög miklar áhyggjur af.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki sé rétt að nefndin fari mjög vandlega yfir þessar sviðsmyndir og áhrifin sem breytingin mun hafa, vegna þess að við segjum á sama tíma að við viljum reka samfélag þar sem við hvetjum til þess að fólk geti verið að mennta sig alla ævi, fólk eigi alltaf annað tækifæri í samfélaginu o.s.frv. Þá er spurning: Er það annað tækifæri fyrir manneskju sem fer í fimm ára leikskólakennaranám, útskrifast 37 ára, samkvæmt þessu frumvarpi að bjóða henni upp á að vera með það háa endurgreiðslubyrði á námslánunum að hún þurfi helst að vinna tvær kvöldvinnur með leikskólakennarastarfinu? (Forseti hringir.) Það togast á þarna og skarast sjónarmið og markmið sem mér finnst að nefndin þurfi að fara vandlega yfir.