145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:42]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa úttekt á frumvarpinu og vil spyrja hana aðeins betur út í námsmenn utan af landi. Nú veit ég að hún er landsbyggðarþingmaður og hefur sömuleiðis verið námsráðgjafi. Mig langar til þess að forvitnast um hvort það hafi verið vandamál, í hennar fyrri störfum, fyrir nemendur sem luku stúdentsprófi að fara til Reykjavíkur eða til Akureyrar að sækja nám. Mun það sem lagt er upp með í frumvarpinu, þessi 65.000 kr. styrkur auk láns, gera það að verkum að landsbyggðarstúdentar komi úr námi með íþyngjandi lánabyrði miðað við jafnaldra þeirra og samstúdenta af höfuðborgarsvæðinu? Mér þykir það vera mikið áhyggjuefni, ekki síst ef þetta mun leiða til þess að stúdentar á höfuðborgarsvæðinu ílengist heima hjá foreldrum sínum. Mig langar til að vita hvert viðhorf hv. þingmanns er varðandi þetta, sér í lagi með tilliti til fyrri starfsreynslu hennar sem námsráðgjafi.