145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:45]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Mig langar einnig til þess að spyrja, þar sem hv. þingmaður situr í allsherjar- og menntamálanefnd, um það sem mig minnir að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi bent á, að það væri kannski hægt að taka upp svipað fyrirkomulag og er í Noregi með tilliti til brothættra byggða. Í Noregi er það þannig að ef stúdent klárar nám sitt á tilskildum tíma og flytur til Norður-Noregs, þá er ákveðin prósenta felld niður af láninu hans. Ég hugsa þetta sem hvata til þess að fólk haldist í heimabyggð og til þess að aðrir sjái sér fært og sjái það sem raunhæfan möguleika eftir nám að fara til annarra byggða og stunda mögulega nýsköpun og þar fram eftir götunum í staðinn fyrir að vera bara í Reykjavík. Ég velti fyrir mér hvort þetta væri mögulega leið sem við ættum að kanna enn frekar.