145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lykilatriði í því sem ég er að segja er að það er gott og gilt að bera saman kerfið eins og það var og kerfið eins og það er núna, sem er nota bene að flestra mati orðið úrelt og sinnir ekki kröfum námsmanna eða samtímans og gegnir ekki því lykilhlutverki nægilega vel að byggja hér upp menntun í landinu og löngu orðið tímabært að endurskoða það. Eitt er að bera þessi kerfi saman og vonandi er það kerfi betra sem hæstv. ráðherra boðar en núverandi kerfi, til þess er leikurinn væntanlega gerður. Hins vegar verðum við líka að horfa á hvort það sé nógu gott. Samanburður við gamla kerfið verður ekki endalaus, hann mun gleymast. Einhvern tímann munum við átta okkur á því að við erum komin með kerfi þar sem afborganir eru ekki tekjutengdar og þá segi ég að það muni leiða til einsleitni. Það er tvennt í þessu sem leiðir til einsleitni. Það er annars vegar að afborganirnar verða ekki tekjutengdar þannig að námsmenn framtíðarinnar munu þá hugsa: Heyrðu, best að ég fái sem hæstar tekjur svo afborganir af námsláninu angri mig sem minnst, séu sem minnst hlutfall. Núna geta menn vænst þess að tillit sé tekið til tekna þeirra, en það verður ekki gert í framtíðinni. Ég held að það muni þýða einsleitni. Hitt er að fólk verði undantekningarlaust að vera búið að greiða námslánið sitt til baka áður en það fer á ellilífeyri. Þetta mun líka leiða til einsleitni og aftra því að við getum byggt upp símenntunarsamfélag, að mínu viti, sem þarf að vera til staðar fyrir það samfélag sem við horfumst í augu við, sem er að verða til.

Hvað varðar að námsmenn séu of lengi í námi og þar fram eftir götunum (Forseti hringir.) þá held ég að gera þurfi ýmislegt (Forseti hringir.) til þess að endurskilgreina faglegar (Forseti hringir.) kröfur sem (Forseti hringir.) háskólarnir gera og veita þeim frelsi (Forseti hringir.) til að reyna að beina nemendum í það nám sem þeir (Forseti hringir.) geta raunverulega klárað og vilja klára.