145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:40]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hef ég ekki forsendur til þess að meta það hvort … (Gripið fram í.) — að því gefnu að þetta sé rétt erum við að tala um 300 þús. kr. greiðslumun. Ég get ekki svarað því hvort þetta er betra eða verra. Ég hugsa um heildaráhrifin af þessu og þá lít ég sérstaklega til þess að við gefum fólki styrk sem býr í foreldrahúsum og þarf í raun og veru ekki á honum að halda, í stað þess t.d. að veita styrkinn til barna námsmanna þannig að þeir þurfi ekki að taka lán fyrir börnin sín. Mér þykir það til að mynda betri nýting á þessum styrk. Mér finnst þetta í raun búa til eins konar hvata fyrir hótel mömmu í boði LÍN, að íslenskir stúdentar sem búa á höfuðborgarsvæðinu fái meiri hvata til þess að búa heima langt fram eftir aldri. Hvort eitt kerfi er gott eða slæmt þegar kemur að endurgreiðslum — það þarf náttúrlega að horfa á það með hliðsjón af báðum kerfum af því að við erum að bera saman epli og appelsínur þegar við reynum að bera þessi kerfi saman. Í fyrsta lagi er það þannig að með því að tekjutengja afborganirnar erum við í flestum tilfellum að létta afborganirnar og þeir sem geta borgi meira. Það er einmitt grundvallarhugsunin á bak við þetta kerfi. Það er ekki það að allir borgi jafnt til baka heldur að fólk borgar eftir því sem það getur. Mundi hjúkrunarfræðingur sem tekur lán upp á 5 milljónir og það er enn þá 5 milljónir — og við erum ekki að tala um verðbólgu og verðtryggingu í þessu öllu saman, sem við ættum að taka tillit til — klára að borga upp lánið sitt? Það er líka annar hvati.

Hvatarnir í þessu kerfi eru mismunandi og styrkurinn er mismunandi. Ég verð að viðurkenna að mér þykir ósiðlegt að þegar einstaklingur fellur frá sé það kallað styrkur. Mér þykir það firra. Það eru bara afskriftir, annars mundu allir bankar tala um styrki til einstaklinga (Forseti hringir.) þegar við tölum um afskriftir af lánum.