145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í langar umræður um þetta en vil þó árétta það sem ég held að skipti svolitlu máli. Við getum ekki horft á námslánakerfið einangrað þegar kemur að einstæðum foreldrum og börnum. Við þurfum auðvitað að horfa á þau styrkjakerfi sem eru til þess að styðja við þann hóp; barnabætur, meðlagsgreiðslur o.s.frv. Reyndar er það þannig að þetta er hópur sem er mjög tekjulágur þegar þessar greiðslur berast. Það er það sem við höfum bent á. Þegar menn horfa til þessarar samsetningar, þ.e. að því gefnu að fólk stefni að því að hafa 100% framfærslu miðað við framfærsluviðmiðin, þegar horft er til annars vegar styrksins og hins vegar þeirra greiðslna sem koma í gegnum meðlag og barnabætur og síðan að viðbættu láni upp í 100% styrkveitinguna þá er það þannig, útreikningar benda til þess, að hóparnir, í það minnsta þegar við skoðum Háskóla Íslands, af því að það er það sem menn hafa skoðað greiningu á alveg sérstaklega hvað þetta varðar og má reikna með að það sé enginn stórmunur á öðrum nemendahópum hérna, koma betur út í þessu kerfi en því sem var. Það er viðmiðið sem við höfum þegar við reynum að leggja mat á það hvort kerfisbreytingin sé jákvæð eða neikvæð.

Virðulegi forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að um flókið mál er að ræða sem þarf nokkra yfirlegu. Ég veit að hv. þingmaður hefur legið mjög yfir því um nokkuð langa hríð og þess vegna treysti ég mér til að eiga við hana orðastað um útreikningsmálin, af því að ég hef tekið eftir því að hv. þingmaður hefur sett sig mjög inn í þessi mál. Þess vegna spurði ég um það. Þegar svona staða kemur upp eins og ég var að lýsa, varðandi t.d. hjúkrunarfræðinema, hljótum við ekki að geta verið sammála um það, þótt við komum úr ólíkum áttum í stjórnmálum, að æskilegt sé að sá hópur sem borgar núna stærsta hluta námslána sinna til baka, þ.e. fólkið sem er á venjulegum launum og fer ekki í dýrustu háskóla veraldarinnar eða fær tugi milljóna í lán heldur ósköp venjulegt fólk hvað þetta varðar, (Forseti hringir.) fái líka sinn hlut í þessum styrk, þau séu ekki hópurinn sem borgi mest til baka en hinir minnst sem fara í dýrustu háskólana?