145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[17:05]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hæstv. ráðherra erum alveg sammála um þetta síðasta. Ég er alveg sammála því að þetta er ósanngjarnt, eins og kom fram í ræðu minni, varðandi þá sem sækja dýrustu skólana, taka hæstu skólagjaldalánin, námslánin, framfærslulánin og við höfum séð að geta ekki, miðað við núverandi kerfi, og munu aldrei borga allt sitt til baka. Eitthvað er afskrifað og kannski stór hluti. Það er ekki sanngjarnt að það sé þannig meðan þeir sem fara hina leiðina, velja sér hóflegu leiðina, borga allt upp í topp. Auðvitað er það ekki sanngjarnt.

Ég væri mikið til í að sjá þá útreikninga sem hæstv. ráðherra nefnir er varðar það að konur eigi að hafa það betra núna miðað við þessar 65 þús. kr. í styrk, sem er þó alltént tekjuskattsskyldur, er það ekki rétt? Já. Þetta er þá lægri fjárhæð. Konur eru mjög oft með börn á framfæri, yngri konur í háskólanum eru þá á pari við karlana. Það sem situr eftir er að við höfum þá ömurlegu staðreynd að konur koma út á vinnumarkaðinn og fá um 10% lægri laun fyrir sömu vinnu og karlar en samkvæmt því kerfi sem hæstv. ráðherra leggur til eiga þær samt að borga jafn mikið á mánuði til baka af námslánum sínum. Og það er aðstöðumunur, hæstv. ráðherra.