145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[17:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta síðasta sem hv. þingmaður kom inn á varðandi fatlað fólk í námi held ég að sé einmitt mjög mikilvægt að skoða, áhrifin þar, og ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða það vegna þess að við vitum að þetta er hópur sem almennt séð hefur lakari menntun en gengur og gerist í samfélaginu. Auðvitað þarf að skoða hvaða áhrif breytingar á einu kerfi geta haft á þann hóp, þannig að þetta er góð ábending hjá hv. þingmanni. Ég vona að hv. þingnefnd taki til sín að skoða það.

Aftur aðeins að samfélagsgerðinni og tækifærum fólks til að skipta um kúrs í lífinu. Ég held að þetta sé sérstaklega mikilvægt í nútímasamfélagi þar sem lífaldur fólks hefur hækkað gríðarlega mikið. Við lifum einfaldlega lengur þannig að það er kannski ekkert skrýtið að fólk vilji geta skipt um starfsvettvang einhvern tímann á ferlinum. Ég held að það sé bara gott. Þetta tengist líka því sem ég vil einnig koma að, sem er kynjavíddin. Þetta getur líka haft áhrif á ekki bara það að konur eru oft í störfum sem eru verr launuð og þess vegna hefur hin ótekjutengda greiðslubyrði áhrif á þær heldur þurfa konur líka að taka sér hlé frá námi, t.d. vegna barneigna. Það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif. Greiðslubyrðin á einnig að vera hærri hjá þeim sem fara síðar í nám. Hér kemur fram að það er talsvert mikill kynjamunur, 13% kvenna eru yfir 35 ára aldri en eingöngu 8% karla. (Forseti hringir.) 1,4% kvenna eru eldri en 50 ára en það eru ekki jafn margir karlar. Er þingmaðurinn mér sammála um að þetta frumvarp þurfi (Forseti hringir.) helst að greina með tilliti til áhrifanna sem það hefur á kynin? Ég hef því miður ekki getað kynnt mér það sem hefur komið frá stúdentaráði Háskóla Íslands svo ég get ekki lagt mat á það (Forseti hringir.) en ég tel að við verðum að fá góða kynjagreiningu á þetta.