145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og ekki síst það sem hann nefndi þar um mikilvægi þess að skoða hvort ekki væri unnt að taka upp samtímagreiðslur til námsmanna. Það er vissulega rétt að það hefur verið talin ansi dýr einskiptisaðgerð að skipta úr því yfirdráttarkerfi sem er núna fyrir hendi og er ekki ætlunin að breyta, það hins vegar mundi skipta mjög miklu máli, held ég, fyrir námsmenn að komast út úr þessu samspili við bankana. Ég tek því mjög undir þau sjónarmið.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um er sú staða sem hann fór yfir og lýtur að endurgreiðslubyrðinni, bæði vegna hærra vaxtastigs og afnáms tekjutengingar. Ég hef ekki náð að fara yfir þá greiningu sem hæstv. ráðherra vísaði til í svari við andsvari mínu fyrr í dag um hvernig þetta komi út fyrir ólíka hópa námsmanna. Það liggur fyrir að þetta kemur verr út fyrir einhverja hópa og þarf auðvitað að skoða sérstaklega hvernig þetta kemur út fyrir barnafólk, sem oft er með hærri lán en ella og þarf að mæta meiri útgjöldum en aðrir vegna þess að það er barnafólk. Það sem væri mjög mikilvægt að skoða, og það er það sem mig langar að orða við hv. þingmann, er samspilið við stefnu þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að skerðingu barnabóta og vaxtabóta og nýkynntum hugmyndum um að séreignarsparnaður sé nýttur til þess að hjálpa ungu fólki að öðlast húsnæði, séreignarsparnaður sem væntanlega er mestur hjá þeim sem hæstar tekjurnar hafa. Þá fer maður að spyrja sig: Hver eru heildaráhrifin af öllum þessum aðgerðum á ungt barnafólk sem er ekki í tekjuhæstu hópunum á Íslandi? Erum við að horfa á það að fólk komi verr út úr séreignarsparnaðarleiðinni sem ríkisstjórnin kynnti, verr út úr breytingum á námslánakerfinu og verr út úr þeim skerðingum á vaxta- og barnabótum sem hér hafa verið á undanförnum missirum?