145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu, það er ánægjulegt að sjá stjórnarliða taka þátt. Mér finnst það mikilvægt. Ég held að margt í þessu frumvarpi sé ágætt en svo hafa komið athugasemdir við ýmislegt. Eitt af því er þessir styrkir sem fara jafnt til allra. Í fyrstu fannst mér það hljóma nokkuð vel en ef það er í raun á kostnað þeirra sem raunverulega neyðast til að taka lán vegna þess að þeir munu þá borga hærri vexti fóru að renna á mig tvær grímur. Það er alltaf spurning hvort við eigum að beina ríkisstyrkjum til þeirra sem ekki þurfa á þeim að halda. Þá er ég að hugsa m.a. til skuldaniðurfellingarinnar sem var aðgerð sem var mér mjög á móti skapi. Það eru mjög mismunandi aðstæður hjá námsmönnum. Eins og bent hefur verið á býr fólk úti á landi en einnig fer fólk t.d. til Akureyrar, í Háskólann á Akureyri, í nám og þarf að leigja og býr þar af leiðandi við allt aðrar aðstæður en nemar sem eru í heimahúsi og lifa á foreldrunum þannig séð. Þeir eru auðvitað fjölmargir.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort þingmaðurinn hafi eitthvað spáð í það að hægt væri að nýta þennan styrk á annan hátt, t.d. til að ganga harðar fram í því að niðurgreiða húsnæðiskostnað fyrir nema. Við erum í rauninni ekki með jafnræði þegar sumir þurfa að sækja nám fjarri heimili og við erum jafnvel í sumum tilfellum að tala um nema sem hafa verið í heimavist og fjölskyldan hefur haft kostnað af því. Er þingmaðurinn sáttur við það að við ætlum í raun að styrkja alla óháð því hvernig aðstæður þeirra eru, hvort þeir búa í heimahúsi eða leigja, um sömu upphæð eða sér hann fyrir sér einhvern veginn að stokka þetta aðeins upp og jafnvel beina þessum stuðningi þá sérstaklega í húsaleigubætur til nema þannig að húsaleigukostnaður verði aldrei íþyngjandi fyrir þá sem stunda háskólanám?