145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil taka undir það sem var sagt hér áðan, ég gleðst yfir því að þingmaður úr stjórnarliðinu taki þátt í umræðum því að ég held að það sé mikilvægt, ekki bara vegna þess að það sé gaman að fá þá í umræðuna heldur einmitt vegna þess að við þurfum að fá breidd inn í þessa umræðu og þess vegna tel ég mikilvægt að fá fram þau sjónarmið sem hv. þingmaður rakti í ágætri ræðu sinni. Hv. þingmaður sagði að hann teldi að það sem maður fái lánað eigi maður að greiða til baka. Ég er því alveg sammála, en ég held að við getum velt fyrir okkur hvernig leiðin er, þ.e. hvernig það gerist og hvort aðferðin sem við notum til þess að greiða til baka sé sanngjörn. Ég set verulega stór spurningarmerki við þetta þar sem endurgreiðslurnar verða ekki tekjutengdar eins og er í núverandi kerfi.

Það sem ég hef m.a. áhyggjur af þar er að þetta muni hafa ólík áhrif á kynin og að þarna muni halla á konur. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að það sé mikilvægt að fá góðar greiningar á því hvort þær áhyggjur séu á rökum reistar, að kerfið eins og það er sett upp í þessu frumvarpi muni þegar upp er staðið gera stöðu kvenna (Forseti hringir.) verri og hvort ekki verði þá að taka sérstaklega á því og breyta einhverju.