145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram að ég hef ekki haft tækifæri enn þá til að kynna mér þessa útreikninga frá stúdentum. Það er sjálfsagt að leggjast yfir það og sjá hvaða forsendur menn gefa sér en í mínum huga rímar þetta mjög illa, annars vegar þar sem á að falla frá eða hætta að tekjutengja greiðslur þar sem við vitum að það er launamunur kynjanna þannig að hlutfallslega ættu konur þá að þurfa að borga meira til baka, og að konur fara síðar í nám á lífsleiðinni eins og hreinlega kemur fram á bls. 40, minnir mig að sé, í þessum fylgitexta og að greiðslubyrðin verður þyngri eftir því sem fólk fer seinna í nám. Það þarf að skoða þetta alveg gríðarlega vel og ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður sé til í að leggjast vel yfir þessar tölur. En þar með ætla ég alls ekki að segja að stúdentaráð (Forseti hringir.) hafi á einhvern hátt rangt fyrir sér, ég hef einfaldlega ekki getað kynnt mér útreikninga þess, en mér finnst eins og að hérna hljóti eitthvað að vanta inn í.