145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðu um þetta frumvarp í dag. Vissulega hafa margir hv. þingmenn lýst stuðningi við þá meginhugmynd að styrkir verði hluti af námsaðstoðarkerfinu eins og við sjáum það þróast á Íslandi. Hins vegar hafa verið settar fram mikilvægar spurningar og athugasemdir sem mig langar að tæpa á í mínu máli og ég tel a.m.k. kalla á ítarlega skoðun hv. allsherjar- og menntamálanefndar í meðferð hennar á málinu.

Hérna er verið að gera ákveðnar grundvallarbreytingar sem hæstv. ráðherra fór yfir í framsöguræðu sinni þar sem fyrirhugað er að skipta námsaðstoðarkerfinu í raun og veru upp þannig að greiddur verður út styrkur til þeirra sem uppfylla námsframvindu og síðan geti nemendur eða námsmenn tekið viðbótarlán. Vextir á þeim lánum verði hærri en á námslánum í nútímanum, þeir eru núna 1%. Það eru að vísu heimildir til þess í lögum að hafa þá hærri en þeir hafa verið 1% lengi og raunar var þeirri ákvörðun andmælt mjög harkalega á sínum tíma því að áður fyrr báru námslánin 0% vexti. Afborganir hafa hingað til verið tekjutengdar á þessum lánum en hér á að breyta því þannig að þær verði ekki tekjutengdar.

Þessar grundvallarbreytingar kalla auðvitað á að skoðað verði sérstaklega hvernig þær koma niður á ólíkum tekjuhópum og fólki með ólíkar fjölskylduaðstæður. Ég nefndi áðan í andsvari mínu við hv. þm. Árna Pál Árnason að þarna þyrftum við sérstaklega að huga að högum barnafólks í háskólanámi og þá nefndi ég líka nauðsyn þess að skoða þetta út frá ólíkum áhrifum á kynin. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir fór yfir það í ræðu sinni að það kynni að vera að þessar breytingar kæmu með mjög ólíkum hætti út fyrir karla og konur út frá aldursdreifingu þeirra í námi og ólíkum greinum og auðvitað ólíkum tekjum því að eins og við vitum er óútskýrður launamunur milli kynjanna í samfélaginu. Tekjutengdar endurgreiðslur miðast við ólíkar tekjur. Gætu þessar breytingar t.d. komið mjög illa niður á konum vegna þess að þær eru með lægri tekjur? Ég velti þeirri spurningu upp. Ég velti þeirri spurningu líka upp hvernig þetta kemur við barnafjölskyldur eins og ég nefndi áðan. Foreldrar í námi fá hærri lán vegna barna og þar af leiðandi er endurgreiðsla þeirra meiri en þeirra sem ekki eignast börn áður en þeir hefja nám.

Ég nefndi áðan í andsvari mínu að ég tel mikilvægt að við horfum á þetta heildstætt og það má segja að gerð sé tilraun til þess með því að setja ákveðna tengingu við húsnæðiskaup í frumvarpið, en ég tel mikilvægt að við skoðum þetta heildstætt út frá ungu fólki á Íslandi og hvernig við viljum sjá hag þess þróast til framtíðar. Þá þurfum við að skoða hvaða breytingar hafa verið gerðar á vaxtabótakerfinu og barnabótakerfinu þar sem þessar bætur hafa verið skertar mjög í tíð núverandi ríkisstjórnar og einnig þær tillögur sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar kynntu í gær um að ungt fólk geti nýtt sér svokallaðan séreignarsparnað til að greiða inn á íbúð, en ég sé nú að sú tillaga fær afar blendin viðbrögð hjá ungu fólki í kringum mig sem telur hana fyrst og fremst snúast um viðhald á séreignarstefnu sem kennd hefur verið við Sjálfstæðisflokkinn en komi lítið til móts við raunverulegar þarfir ungs sem vilji vera hreyfanlegt, vilji ekki endilega fjárfesta í steinsteypu, vilji eiga góðan lífeyri í framtíðinni og vilji eiga aðgang að ódýru leiguhúsnæði. Þessar aðgerðir saman, það sem var kynnt í gær, þetta frumvarp, skerðing barnabóta og vaxtabóta — allt vekur þetta spurningar um það hvernig hið opinbera hagar stuðningi sínum við ungt fólk í húsnæðismálum og þegar kemur að barneignum og þegar kemur að námsstyrkjum og námslánum.

Ég held að í þessu máli séu nokkrir þættir sem þurfi að skoða mjög vel. Í fyrsta lagi eru það endurgreiðslurnar. Hæstv. ráðherra svaraði því áðan til þegar ég spurði hann hvort hann hefði ekki áhyggjur af því að þetta hefði áhrif á námsval að þetta hefði verið greint af hálfu stúdentaráðs Háskóla Íslands. Við erum líka með umsögn eða skoðun, af því að málið er ekki formlega farið til umsagnar, frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis sem hefur miklar áhyggjur af þróun mála fyrir þá námsmenn sem sækja nám erlendis verði frumvarpið að lögum. Það hefur sent frá sér einhvers konar forumsögn þar sem það lýsir verulegum áhyggjum af endurgreiðslunum, í ljósi þess að þetta eru oft þeir námsmenn sem hæst taka lánin og þar af leiðandi gæti þetta bitnað mest á þeim vegna þess að oft borga þessir aðilar skólagjöld í erlendum skólum en líka vegna þess að framfærslukostnaðurinn spilar þar inn í.

Það þarf að greina frumvarpið út frá stöðu námsmanna erlendis og hvort við séum að reisa hindranir við því að fólk sæki sér nám erlendis sem við viljum þó í okkar litla landi að það geri því að mjög mikilvægt er að fólk sæki sér nám erlendis og einskorði sig ekki við nám hér á landi. Þá greiningu vantar.

Hvað varðar endurgreiðslurnar er líka mikilvægt að rýna það mjög vel hvort sú aðferðafræði að afnema tekjutengingu hafi ekki áhrif á námsval. Horfum bara til greina sem hafa átt undir högg að sækja. Ég nefni hugvísindin sem dæmi, tungumálanám á Íslandi sem ætti þó að vera eitt það mikilvægasta sem fólk á jafn litlu málsvæði getur lagt stund á, nám í erlendum tungumálum sem opnar margar dyr fyrir litlar þjóðir eins og okkur. Þetta eru ekki hálaunastéttir og að þessu þarf að huga og skoða þau gögn sem hér hefur verið vitnað til um að breytingin muni ekki bitna á þessu fólki. Þetta er fólk sem sækir einmitt líka nám erlendis. Við viljum ekki byggja upp námsstuðningskerfi sem breytir því að fólk geti fylgt sínum frjálsa vilja í því hvernig það velur námið. Það held ég að hljóti að vera lykilatriði sem við hér í þingsal getum verið sammála um, að við viljum ekki að aðgerðir okkar valdi því að menntakerfið verði einsleitara, að fólk sæki í einsleitara háskólanám. Við viljum tryggja fjölbreytt val þar sem fólk fylgir sínum frjálsa vilja en er ekki að huga að tekjum sínum að loknu námi. Þetta þarf að skoða mjög vandlega.

Ég vil líka nefna doktorsnám og það kom fram í máli hæstv. ráðherra í upphafi að skoða þyrfti sérstaklega málefni doktorsnáms og doktorsnema. Auðvitað væri langæskilegast að við værum með kerfi þar sem doktorsnemar væru á launum en það er ekki svo. Hluti þeirra er á styrkjum, það er þó mismunandi eftir greinum. Það er mjög mismunandi menning milli fræðasviða þar sem sums staðar eru doktorsnemar oft í doktorsnámi í tilteknum stærri verkefnum hjá leiðbeinendum, sínum háskólakennurum þar sem heilu verkefnin fá styrk og doktorsnemar njóta góðs af, en við erum líka með allt aðra menningu í öðrum fræðasviðum þar sem fólk fer í framhaldsnám í raun og veru á eigin vegum og stundar doktorsnám með sjálfstæðri rannsókn. Ég vísaði áðan til þess í andsvari við hæstv. ráðherra að við höfum t.d. horft upp á það á sviði hugvísinda að u.þ.b. 17% fengu styrk við síðustu úthlutun til doktorsnáms. Meðan staðan er þannig er ekki hægt að skerða rétt þessara nema.

Ég mundi fagna því ef ráðherra kæmi fram með frumvarp sem tryggði að doktorsnemar yrðu settir á laun. Það væri raunveruleg kjarabót fyrir framhaldsnema og mikilvægt skref fyrir rannsóknir í landinu og tíðkast víða í þeim löndum sem við berum okkur saman við, eins og t.d. annars staðar á Norðurlöndum. En það er ekki svo og þá þarf að endurskoða það.

Ég hef aðeins verið að skoða þá greiningu sem vitnað er til í lok frumvarpsins frá ráðgjafarfyrirtækinu Summu. Þar kemur fram að samanburður milli gamla kerfisins og nýrra tillagna sé ekki einfaldur þar sem kerfin séu mjög ólík. Ég tek undir það eftir að hafa lesið þessa greiningu að í raun og veru er mjög erfitt að bera saman þessi kerfi. Þó er ýmislegt sem mér finnst vekja athygli, t.d. hversu margir óvissuþættir eru taldir upp í þeirri greiningu, m.a. hversu margir nemar sem ekki taka lán núna muni fá styrk. Þar er vitnað til þess að líklegt sé að þeir nemar fái ekki lán af því að þeir nái ekki lágmarksárangri. Er það nægilega góð forsenda þegar við horfum til þess að margir kjósa jafnvel að taka ekki námslán til að skuldsetja sig ekki, kjósa að hægja á námsframvindu sinni og vinna þá jafnvel með til að sjá fyrir sér? Það kann vel að vera að sá hópur sem sýnir ekki námsframvindu samkvæmt þeim gögnum sem Summa vitnar í — og ég vænti þess að það sé hluti af greinargerð frumvarpsins þar sem vitnað er til þeirra sem ná ekki námsárangri — muni geta tekið sitt nám á réttum tíma ef hann getur sleppt því að vera í hlutastarfi með. Þetta er algeng staða hjá t.d. námsmönnum í heimahúsum sem vinna hlutastarf til þess að fá fjármuni til framfærslu en eigi þeir um það að velja að fá styrk frá ríkinu gegn því að ljúka námi á réttum hraða, jú, þá kann þetta að virka hvetjandi, en setur það þá ekki forsendur kostnaðarmats frumvarpsins í uppnám? Þetta þarf að kanna en er auðvitað erfitt að meta nema hringja í hvern einasta háskólanema og spyrja. Væntanlega hefur það ekki verið gert þó að stundum mætti halda það af því hvernig talað er.

Það eru ýmsar forsendur í þessum málum sem manni finnst þurfa að skýra talsvert betur. Það er áhugavert að sjá í greiningu Summu þessa gullnu setningu, vil ég leyfa mér að segja:

„Fortíðin skiptir e.t.v. ekki öllu máli og erfitt er að spá fyrir um framtíðina.“

Ég held að þetta sé mjög haldbær forsenda sem þetta ágæta ráðgjafarfyrirtæki gefur sér í greiningu sinni en ég hlýt að gera þá kröfu á Alþingi Íslendinga að við bæði lærum af fortíðinni og reynum að spá fyrir um framtíðina þegar um er að ræða grundvallarbreytingar í því hvernig við viljum styðja við okkar námsmenn.

Hver eiga markmiðin að vera? Markmiðin hljóta auðvitað að vera þau að við viljum tryggja jafnan aðgang allra að námi, það eru hin félagslegu markmið sem eiga að vera til grundvallar þegar við horfum á slíkt kerfi eins og námsaðstoðarkerfið eða lánasjóðskerfið er. Við viljum tryggja jöfn tækifæri, jafnan aðgang allra að námi og þá hlýtur vekja spurningar sú grundvallarbreyting að allir eigi rétt á styrk sem ljúki tiltekinni námsframvindu en þeir sem þurfa á meiri peningum að halda af því að aðstæður þeirra eru þannig, af því að þeir geti ekki búið í heimahúsum af því að þeir koma til að mynda utan af landi og þurfa að leigja sér húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þurfa að taka viðbótarlán með ótekjutengdum endurgreiðslum og með hærri vöxtum en nú er. Þá hljótum við að spyrja: Hvernig uppfyllir þetta markmiðið um jafnrétti til náms sem ætti að vera aðalhlutverk slíks kerfis? Við hljótum líka að spyrja hvaða áhrif þetta kunni að hafa sem ég nefndi áðan á háskólanám á Íslandi og háskólamenntun. Hvaða áhrif hefur þetta á fjölbreytni háskólamenntunar og háskólanáms? Hvaða áhrif getur þetta haft inn í skólana? Rektor Háskóla Íslands hefur viðrað áhyggjur af þessu sjónarmiði og það hefur verið mjög mikilvægt að heyra sjónarmið rektora háskólanna í kringum meðferð þingsins á þessum þætti. Á okkar litla landi megum við bara ekki við meiri einsleitni í menntun.

Það er mjög mikilvægt líka að kanna hvaða áhrif þetta hefur á hvata fólks til að sækja sér nám til útlanda sem er ekki vanþörf á á Íslandi. Það vekur áhyggjur að lesa forumsögn Sambands íslenskra námsmanna erlendis þar sem ýmsum spurningum er velt upp um stöðu námsmanna erlendis. Þau horfa til þess að sá hópur mun ekki geta látið sér nægja að þiggja styrk frá hinu opinbera. Sá hópur mun alltaf þurfa að taka lán með þessum hækkuðu vöxtum og ótekjutengdu afborgunum.

Þetta eru þau markmið sem þarf að hafa í huga. Hér hefur líka ýmsum spurningum verið varpað fram, t.d. af hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur sem hæstv. ráðherra átti orðastað við fyrr í dag um fjölda erlendra nema sem kynni að sækja hingað til lands. Þó að það hafi ekki verið sérstakt vandamál eða viðfangsefni hér benti hv. þingmaður á það að þessi þróun er mjög sláandi í nágrannalöndum okkar. Auðvitað þurfum við að skoða það, ekki síst í ljósi þess eins og hæstv. ráðherra þekkir að háskólarnir hafa sett sér það markmið að verða alþjóðlega samkeppnishæfir og æ meira af því námsframboði sem þar er er á ensku eða öðrum erlendum málum, hvað svo sem manni finnst um það. Það er önnur algjörlega óskyld umræða en kann þó að hafa áhrif á það ef námsaðstoðarkerfinu verður breytt með þessum hætti.

Ég hefði getað rætt síðan aðeins meira um söguna og þá grundvallarbreytingu sem ég hefði viljað sjá en menn hafa aldrei talið að ríkið hefði efni á, sem væri að breyta þessu lánakerfi yfir í samtímagreiðslukerfi. Það verður kannski að bíða (Forseti hringir.) seinni umræðu um þetta mál en eins og ég segi, slíkar grundvallarbreytingar kalla á vandaða málsmeðferð af hálfu Alþingis.