145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður rifjar hér upp frumvarp til breytinga á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem ég lagði fram sem mennta- og menningarmálaráðherra snemma árs 2013. Nú man ég ekki nákvæmlega hvenær það var, í hvaða mánuði, en það var snemma árs 2013. Þá voru kosningar um vorið og svo ég rifji það upp bara til gamans voru viðbrögð þáverandi stjórnarandstöðu að það mál væri allt of stór grundvallarbreyting, voru þó nokkrir mánuðir til kosninga og a.m.k. tveir mánuðir eftir af þinghaldi, að þetta væri allt of stórt grundvallarmál til að hægt væri að ljúka því á jafn skömmum tíma. Gott ef ég man ekki eftir mörgum núverandi hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem komu hingað upp og viðruðu þungar áhyggjur af því að ekki mundi nást að klára málið, þó að allir lýstu þeir yfir stuðningi við þá grundvallarhugmyndarbreytingu sem var að hluti námslána, þ.e. höfuðstóll námslána, mundi breytast í styrk. Þá lögðu a.m.k. hv. þingmenn núverandi ríkisstjórnarflokka mjög mikla áherslu á vandaða málsmeðferð þannig að það er ágætt að muna eftir því þegar við ræðum þetta mál sem hingað er komið inn á þetta stutta sumarþing.

Hvað varðar námsmannahreyfingarnar sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um — hún var ekki að spyrja um þetta — voru námsmannahreyfingarnar, þ.e. fulltrúar SÍNE, stúdentaráðs Háskóla Íslands og fleiri stúdentafélaga, kallaðar til samráðs við undirbúning þess frumvarps sem gerði sem sagt ráð fyrir þeirri breytingu, að hluti námslána mundi breytast í styrk að loknu námi ef námsframvindukröfur væru uppfylltar, þannig að það var aðeins önnur hugsun í því. Ekki var gert ráð fyrir að allir fengju styrk heldur að þeir sem tækju lán ættu kost á því að hluti þeirra, að mig minnir fjórðungur, mundi breytast í styrk að námi loknu. Hugsunin var auðvitað sú að hvetja líka til þess að námsframvinda yrði hraðari (Forseti hringir.) sem ég held að sé sameiginlegt markmið þannig að námsmannahreyfingarnar komu beinlínis að undirbúningi þess frumvarps á sínum tíma.