145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann um þann þátt sem lýtur að endurgreiðslum lánahlutans, þ.e. ekki styrkjahlutanum, heldur því að þeir sem þurfa á lánum að halda þurfa svo að endurgreiða þau seinna meir, ekki í tekjutengdum afborgunum, og með hærri vöxtum en nú er. Ég hef ekki mikinn tíma til að skoða þá greiningu sem hæstv. ráðherra vísaði í í upphafi, í greiningu frá stúdentaráði Háskóla Íslands. Þó sýnist mér fljótt á litið að þar sé miðað við annars vegar meðallán þeirra stúdenta sem nú eru í tiltekinni námsgrein og hins vegar meðallaun þeirra síðar á ævinni. Með þeim reikniaðferðum er fundið út að nánast allir komi betur út í endurgreiðslum í þessu kerfi en hinu gamla.

Nú velti ég því fyrir mér hvort þetta sé rétt greiningaraðferð þegar við skoðum hvernig breyttar endurgreiðslur munu koma út fyrir ólíka hópa. Þá vil ég sérstaklega spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að meta þurfi þetta, ekki bara út frá slíkum meðaltalstölum heldur skoða hvernig endurgreiðslur námslána muni koma niður á ólíkum tekjuhópum þannig að hægt sé að leggja mat á það hvernig þetta kemur út fyrir ólíka tekjuhópa í samfélaginu — þar er væntanlega hægt að njóta krafta verkalýðshreyfingarinnar — og hvernig þetta kemur út milli kynja með ólíkum hætti út frá einföldum hlutum eins og óútskýrðum launamun kynjanna sem væntanlega hefur áhrif á það þegar um er að ræða tekjutengdar endurgreiðslur.

Í síðasta lagi vil ég spyrja hvaða áhrif þetta kann að hafa á barnafólk sem tekur væntanlega hærri lán í námi, ekki síst í ljósi þess að við höfum horft upp á ýmsar strúktúrbreytingar fyrir þessa hópa í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ég nefni skerðingu barnabóta og vaxtabóta og nýjar hugmyndir um húsnæðisstyrki fyrir ungt fólk. (Forseti hringir.) Mig langar að fá álit hv. þingmanns á þessum greiningum.