145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er sjónarmið sem ég hef a.m.k. ekki séð gerða grein fyrir hvorki í greinargerð frumvarpsins — ég tek fram að það kann að vera, en þá er hægt að leiðrétta mig um það hér. Ég hef ekki séð þetta heldur í þeirri greinargerð sem ráðgjafarfyrirtækið Summa skilar og fylgir með frumvarpinu. Ég sé ekki heldur að gert sé ráð fyrir þessari kynjabreytu í þeirri greinargerð sem ég er að vísu aðeins búin að skoða lauslega frá stúdentaráði, en þar sýnist mér, eins og ég sagði áðan, að miðað sé við meðallaun tiltekinna starfsstétta. Þar af leiðandi er innbyggður launamunur kynjanna í þeim útreikningum, þ.e. af því að við vitum að sá munur er til staðar. Þar af leiðandi koma konurnar verr út en karlarnir. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta samrýmist yfirlýstum markmiðum um kynjaða fjárlagagerð og kynjaða hagstjórn. Við höfum að vísu séð slíkum markmiðum snúið hér við í þingsal af þingmeirihluta þrátt fyrir góðan vilja hæstv. fjármálaráðherra í þeim efnum í umdeildu skattafrumvarpi í vor. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé þörf á að fá slíka greiningu fram af því að það er að sjálfsögðu ekki nóg að miða eingöngu við meðallaun, einhverja meðaltalstölu út frá tilteknum starfsgreinum.

Hitt er það sem hv. þingmaður kom inn á í svari sínu, þ.e. námsframboðið og hvaða áhrif þetta getur haft á það. Hún nefndi starfsstéttir, hjúkrunarfræði og annað, en ég vil líka halda til haga þeim námsgreinum sem hafa kannski ekki augljósa þjóðhagslega þýðingu. Ég nefni hugvísindin sem dæmi, tungumálagreinar, greinar sem ekki eru endilega ávísun á háar tekjur að loknu námi en eigi að síður afar mikilvægar og hafa átt undir högg að sækja í háskólasamfélaginu. Ég velti fyrir mér hvort ekki þurfi að skoða nákvæmlega hvaða áhrif frumvarpið hefur á námsframboð hér á landi í háskólum. Kvartað hefur verið undan því að of mikil einsleitni sé nú þegar (Forseti hringir.) og sömu greinarnar kenndar um land allt meðan aðrar eiga undir högg að sækja. (Forseti hringir.) Kann að vera að þetta ýti enn undir þá þróun?