145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Það er auðvitað þannig að í velferðarnefnd erum við með stóru framfærslukerfin, þar eru almannatryggingarnar, þ.e. ellilífeyrir og örorkulífeyrir, þar eru atvinnuleysistryggingarnar og þar eru fæðingarorlofsgreiðslurnar. Þetta eru framfærslukerfin. Svo er enn ein stoðin sem eru námslánin. Þau hafa náttúrlega hingað til ekki heyrt undir okkur og ekki verið í okkar ranni. Nú er svo sem verið að breyta þessu fyrirkomulagi, en eins og ég sagði lít ég svo á að Lánasjóður íslenskra námsmanna sé ein mikilvægasta menntastofnun landsins og á eðlilega heima í allsherjar- og menntamálanefnd. En ekki er óeðlilegt að allsherjar- og menntamálanefnd geti óskað eftir að velferðarnefnd fari í slíka greiningu, eða bara staðið fyrir henni sjálf, á því hvers konar áhrif þetta hafi á mismunandi þjóðfélagshópa, t.d. á fólk eftir búsetu, fólk eftir kyni, greini aldur þegar fólk fer inn í ákveðnar námsgreinar, hvaða áhrif það hafi. Og svo er nú annað mál, af því að það virðist vera keppikefli þessarar ríkisstjórnar að fá fólk til þess að hætta að eiga börn, hvaða áhrif þetta hafi á barnafólk. Nú hefur það verið styrkleiki í íslensku samfélagi að við höfum byrjað frekar snemma að eignast börn og námslánakerfið hefur gert fólki kleift að stunda nám þrátt fyrir barneignir til að sjá fyrir sér og sínum. Þessar greiningar þurfa því sannarlega að fara fram. En ég ætla að viðurkenna að ég tel að velferðarnefnd þurfi ekkert sérstaklega að koma að því, (Forseti hringir.) en við munum að sjálfsögðu bregðast jákvætt (Forseti hringir.) við verði þess óskað.