145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í meginatriðum hefur verið ákveðin sátt um að reka Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það var meira að segja svo í umræðum um frumvarp þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, í febrúar 2013 að það var líka almennur sáttaundirtónn í því þegar fólk ræddi það að eðlilegt væri að bæta styrkjavirkni inn í kerfið. Það var algjörlega þvert á flokka. En hins vegar er það svo að fram koma raddir í umsögnum og áhyggjur af þessu máli í samfélaginu, og þá vil ég kannski sérstaklega nefna áhyggjuraddir frá háskólarektor. Háskólarektor telur að undirstaða eða hugmyndafræðileg undirstaða sjóðsins sé í uppnámi, þ.e. hugmyndin um félagslegt jöfnunarhlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að frumvarpið ráðist gegn þeim kjarna. Ég ætla nú ekki að fara að lesta hv. þingmann og velferðarnefnd með því að gera um það tillögu að málið fari þangað.

Ég vil bara vekja athygli á því að um eðlisbreytingu á sjóðnum er að ræða sem varðar félagslega þætti fyrst og fremst, sem kemur inn á þá þætti sem hv. þingmaður nefndi, stöðu barnafólks, stöðu tekjulágs fólks, stöðu miðað við búsetu, miðað við aldur og ekki síst kynjasjónarmið sem eru í raun háalvarleg í þessu samhengi þegar við vitum að konur sem eru mögulega með börn á framfæri frekar en karlar meðan á námi stendur, taka þar með hærri lán, eru hugsanlega með lengri námstíma af sömu ástæðum, þurfa af sömu ástæðum að borga hærri afborganir, eru enn þá óútskýrt með lægri laun og eru þess vegna í þeirri stöðu að þær eru útsettar fyrir kynbundna fátækt á ábyrgð þessa frumvarps.