145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:25]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þróttmikla ræðu svo ekki sé meira sagt. Þar sem hv. þingmaður hefur fylgst með þróun Lánasjóðs íslenskra námsmanna lengur en ég er búin að vera til langar mig til að spyrja hann nokkurra spurninga, sér í lagi þegar kemur að skólagjöldum.

Í skýrslu eða greinargerð sem greiningarfyrirtækið Summa gerði um endurskoðun laga um LÍN og greiningu á nýju og gömlu kerfi kemur fram að í núverandi kerfi kosti skólagjöld upp á 3,73 millj. kr. nemann í gamla kerfinu 1 millj. kr. Þar af leiðandi borgar nemandinn í raun og veru aldrei of mikið í skólagjöld. Það vill þannig til að Ísland er fámennt land og við getum ekki gert það sem aðrir geta, haft fjölbreytt nám. Stundum þurfum við einfaldlega að fara út í nám og stundum þurfum við að borga skólagjöld. Á móti kemur að hver einstakur nemandi á Íslandi sem fer í Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og á fleiri staði kostar líka þannig að mér finnst skjóta skökku við að við séum ekki að hjálpa þeim nemendum sem þurfa að fara út í nám, nemendum sem þurfa að greiða skólagjöld, sem þurfa og vilja borga þetta til baka hlutfallslega eftir á. Síðan eru líka aðrar greinar, eins og tónlist og hugvísindi, þar sem eru há skólagjöld en nemar hafa ekki mikla tekjumöguleika að námi loknu. Eigum við þá ekki t.d. að reyna að borga þeim þetta til að þau geti komist út í nám? Ég held að skólagjöldin eigi helst við um nemendur sem fara út í nám.