145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, mér finnst það eiginlega falla fyrir borð á báðar hliðar málsins eins og ég reyndi að útskýra í ræðu minni. Mér finnst menn missa sjónar á undirstöðuatriðum þessa máls sem snúa að því að tryggja jafnrétti til náms. Til að það verði gert verður að jafna þann aðstöðumun sem fólk býr við varðandi aðstæður, tekjuöflunarmöguleika, fjölskyldusamsetningu og annað í þeim dúr. Það liggur í hlutarins eðli. Það er reynt að gera í dag. Á hina hliðina kemur svo hin tekjutengda afborgun og auðvitað niðurgreiðsla vaxtanna sem verulegur hluti af ríkisframlaginu fer í, að lánin bera þó ekki nema 1% vexti, þau eru verðtryggð. Mörgum finnst bara alveg nóg ofan á verðtryggingu að borga 1% vexti. Þau byrja ekki að endurgreiðast fyrr en tveimur árum eftir að námi lýkur. Nú skilst mér að það eigi að fara að borga þetta strax eftir eitt ár og það með 3% vöxtum.

Förum aðeins yfir söguna sem segir sitt. Fyrst eru lánin verðtryggð en með 0% vöxtum og þá er lengi vel ekki byrjað að borga af þeim fyrr en þremur árum eftir nám. Þau liggja vaxtalaus og það er ekki byrjað að borga höfuðstólinn til baka fyrr en þremur árum eftir nám. Næsta skref er að setja á þau 1% vexti undir miklum mótmælum 1992. Núna á að fara með þá vexti í 3% til að mæta kostnaði sem fer í flötum námsstyrkjum jafnt til allra óháð aðstæðum. Er þá ekki hægt að segja það sem ég hef sagt, að jafnaðarhugsunin sé dottin út úr málinu báðum megin? Það er ekkert eftir af henni í raun og veru. Þannig nálgast ég það og þá er mikið fyrir borð. Hinn heilagi gral þessa máls er jafnrétti til náms. Það er hinn heilagi gral (Forseti hringir.) sem aldrei má svíkja í þessu máli.