145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætla að segja að við jafnaðarmenn erum hlynntir almennum stuðningi eins og tíðkast t.d. varðandi barnabótakerfið á Norðurlöndum þar sem samfélagið tekur þátt í því að auðvelda fjölskyldum að ala upp börn án þess að það komi niður á tekjum þeirra og að það verði minni munur á ráðstöfunartekjum innan tekjubila óháð því hver barnafjöldinn er. Við erum líka hlynnt almennum stuðningi í námi, það sé samfélagsins að taka þátt í því að fólk geti framfleytt sér þegar það er í námi og sé ekki sem fullorðið fólk háð fjárframlögum frá foreldrum sínum og þurfi ekki að vinna of mikið á kostnað námsins.

Það breytir ekki því að síðan verðum við að taka tillit til þess að fólk er í mismunandi þörf fyrir stuðning. Þar kemur ekki bara inn í efnahagur, heldur líka hvar fólk býr á landinu. Það er ekki heldur þannig að allir geti búið heima hjá foreldrum sínum fram eftir aldri. Við getum sagt að á höfuðborgarsvæðinu geti fólk búið heima fram undir kannski 21, 22 ára aldur, en það getur ekki ungt fólk sem býr á stöðum þar sem ekki er aðgengi að háskólanámi. Við viljum líka að fólk geti farið þangað sem háskólanámið er sem það vill sækja en sé ekki fast við ákveðinn stað. Ég spyr hvort þingmaðurinn, sem er úr landsbyggðarkjördæmi, (Forseti hringir.) hafi ekki áhyggjur af stöðu ungs fólks á landsbyggðinni í samanburði við ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu eða á Akureyri. Nægur er nú munurinn (Forseti hringir.) þó þegar í dag.