145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég hef það og nefndi það í ræðu minni ef menn ákveða að færa einhvern hluta stuðningsins sem í dag er fólginn í annars vegar hinum niðurgreiddu vöxtum og hins vegar þeirri staðreynd að lánin eru til 40 ára og afborganirnar tekjutengdar að sumir greiða ekki upp öll sín lán, þeir fara í langt og dýrt nám og taka námslán og eru síðan ekki mjög tekjuháir eftir að út á vinnumarkaðinn er kominn. Fimm, sex, átta, jafnvel 10, 12 árum síðar en margir aðrir fara út á vinnumarkaðinn er vissulega dálítið af lánunum afskrifað.

Ef menn ákveða að færa einhvern hluta af þessum opinbera stuðningi inn í kerfið yfir í beina styrki eða laun þá er ekkert því til fyrirstöðu að gera það þannig að menn nái að einhverju leyti jöfnunarmarkmiðinu á þá hlið í gegnum það hvernig það er útfært, t.d. að jafna aðstöðumun eftir búsetu. Margir þurfa að sækja nám langt frá heimabyggð. Það er talsvert um að það sé alls ekkert í boði, ekki einu sinni fjarnám eða á nokkurn hátt, að sækja lánshæft nám á háskólastigi eða annað lánshæft nám nema kannski á einum til tveimur stöðum á landinu og ekki í boði í fjarnámi. Hvað eiga menn þá að gera? Menn verða að taka sig upp og búa annars staðar með tilheyrandi kostnaði. Þetta er hægt að jafna ef vilji er til staðar í kerfinu. En menn ná því ekki fram með þessum hætti, svo mikið er víst.

Auðvitað er mikil félagsleg jöfnun fólgin í hinum tekjutengdu afborgunum. Það liggur í hlutarins eðli. Nú er það auðvitað þannig að þeir sem þurfa að taka há lán og fá lánað vegna framfærslu barna verða skuldugri (Forseti hringir.) og þeir borga það allt sjálfir ef þeir komast í góðar tekjur og endurgreiða (Forseti hringir.) sín námslán að fullu. En ef þeir enda á (Forseti hringir.) lægri launum þá er það jafnað að hluta til út.