145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[22:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum við 2. umr. nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð. Líkt og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir fór svo ágætlega yfir í framsöguræðu sinni með nefndarálitinu tengist þetta frumvarp beint sérstakri þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var í vor á Alþingi.

Þegar þjóðaröryggisstefnan kom til atkvæða á Alþingi studdum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þær breytingartillögur sem bornar voru upp við þjóðaröryggisstefnuna, enda voru þær allar til þess fallnar að íslenska þjóðaröryggisstefnan væri byggð á víðum grunni og horfði til margra og ólíkra þátta sem stefnt geta öryggi einnar þjóðar í hættu. Svo ég nefni einhver dæmi vil ég nefna náttúruvá, farsóttir og fæðuöryggi, auk þess sem í þeirri stefnu kemur einnig fram að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði á Íslandi. Það er mál sem hafði lengi verið eitt af baráttumálum okkar í VG.

Frá upphafi allrar vinnu um þjóðaröryggisstefnu höfðum við fulltrúar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hins vegar haldið þeirri stefnu okkar hreyfingar til haga að við teljum öryggi Íslands best borgið utan allra hernaðarbandalaga og við viljum að varnarsamningnum við Bandaríkin frá árinu 1951 verði sagt upp. Þess vegna gátum við ekki stutt ákvæði í þjóðaröryggisstefnu sem ganga í þveröfuga átt við þetta og sátum af þeim sökum hjá við lokaafgreiðslu málsins en studdum allar breytingartillögur. Mér finnst mikilvægt að rifja þetta upp þegar við ræðum um þjóðaröryggisráðið. Þetta er jú beintengt. Það er m.a. mælt fyrir því í 11. gr. þjóðaröryggisstefnunnar að þjóðaröryggisráð verði sett á laggirnar með sérstökum lögum.

Við 1. umr. um frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð var ég og við fleiri í VG gagnrýnin á frumvarpið eins og það leit þá út og töldum það ekki vera í takti við þjóðaröryggisstefnuna með þeim breytingum sem hún hafði tekið í meðförum þingsins þar sem búið var að bæta inn í atriðum svo sem því sem tengist loftslagsbreytingum, fjármála- og efnahagsöryggi, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum, svo eitthvað sé nefnt, en það byggðist enn þá að langmestu leyti á hernaðarlegum þáttum. Við gagnrýndum þetta og komu fram ýmsar tillögur til úrbóta á málinu. Skemmst er frá því að segja að hv. utanríkismálanefnd komst að niðurstöðu þar sem tekið var tillit til þessara ábendinga. Líkt og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir fór yfir áðan eru þetta þættir eins og að auka aðgengi borgaralegra fulltrúa að þjóðaröryggisráðinu. Það var gert með því að bæta við fulltrúa Landsbjargar þannig að hann eigi fast sæti í ráðinu. Töldum við það til mikilla bóta. Líkt og hv. þingmaður nefndi einnig var mikil umræða um þetta og voru mjög margir nefndir til sögunnar. Ég vil til að mynda nefna þar landlækni sem ég tel að hefði fyllilega getað komið til greina sem maður með fast sæti í þjóðaröryggisráðinu og hægt er að rökstyðja það með ýmsum hætti. En lendingin varð, og við komumst að samkomulagi um, að það yrði fulltrúi Landsbjargar. Það hafði líka verið nefnt í 1. umr. að þingið þyrfti að hafa aðkomu að ráðinu. Nefndin komst að niðurstöðu um að leggja til að það yrðu tveir þingmenn, frá bæði meiri hluta og minni hluta hvers tíma, sem sæti ættu í ráðinu. Svo leggjum við það til að ákvæði um trúnað verði snúið við frá því sem lagt var til í upprunalega frumvarpinu, þ.e. að það sé ekki hið venjulega, að trúnaður sé um það sem fram fer og gerist á fundum þjóðaröryggisráðsins, heldur sé það akkúrat öfugt, meginreglan sé sú að ekki gildi trúnaður. Svo var einnig gert skýrara hvaða viðurlög það eru sem hægt væri að grípa til ef veittar eru rangar upplýsingar. Nefndin leggur þar einnig til breytingar.

Það er vegna þess hvernig komið var til móts við gagnrýni okkar við 1. umr. sem ég skrifa undir þetta nefndarálit. Hv. utanríkismálanefnd náði ákveðinni sátt um hvernig málið gæti litið út. Vitaskuld hefði það litið einhvern veginn öðruvísi út hefði ég fengið að ráða þessu ein en svo gott var það nú ekki. En með vísan til þess að tekið var mark á þeirri gagnrýni sem við settum fram og málið er allt miklu betra og bætt, verði þessar breytingartillögur hv. utanríkismálanefndar samþykktar, er ég tilbúin til að leggja nafn mitt við nefndarálitið.