145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[23:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég er fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd og nafn mitt er ekki undir þessu nefndaráliti. Það er út af fyrir sig ekki vegna þess að ég óttist endilega á hvaða leið Evrópusambandið er með sitt fjármálakerfi. Hins vegar er alveg ljóst að við eigum eftir að gera upp við okkur hvernig við ætlum að reka fjármálakerfið í okkar landi. Það er kannski svolítið önnur umræða og mér finnst hún ekki alveg koma inn á þetta.

Hitt er annað mál að með því að taka upp svona reglur verðum við að vita hvernig við ætlum að framfylgja þeim. Hvernig vitum við að þeim verði framfylgt? Og hvernig ætlum við að hafa eftirlit með því að það sé gert hér á landi? Og förum við eftir þeim ef við tökum þær upp? Svo má vera önnur spurning hvort við ætlum að gera okkar fjármálakerfi einhvern veginn öðruvísi og minnka regluverkið fyrir okkur.

Á hinn bóginn er samhliða þeim reglum sem er fjallað um í þeirri tilskipun sem hér er verið að taka upp komið á miklu eftirlitskerfi innan Evrópusambandsins. Í nefndarálitinu stendur vissulega, eins og hv. framsögumaður nefndarálitsins sagði, að af hálfu nefndarinnar sé áréttað að með þeirri aðlögun íslensks réttar sem lögð er til í frumvarpinu felist engin afstaða gagnvart því hvernig hlutverk sameiginlegra eftirlitsstofnana Evrópusambandsins eða Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálamarkaða verði gagnvart íslenskum fjármálafyrirtækjum.

Ég tel einfaldlega þessa tilhögun óaðskiljanlegan þátt frá því að taka upp þessar reglur. Þess vegna skrifaði ég ekki undir nefndarálitið og þess vegna mun Samfylkingin sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.