145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar yfirvöld og framkvæmdarvaldið ákveða að gera eitthvað þá kostar það jafnvel peninga. Reynsla síðustu ára af hinni svokölluðu Dyflinnarreglugerð hefur verið sú að Ísland reynir eftir fremsta megni að nýta hana til þess að henda fólki úr landi ef Ísland mögulega getur. Sá misskilningur er algengur að það kosti sjálfkrafa peninga að segja já við hælisleitendum þegar þeir sækja hér um hæli en kostnaðurinn sem felst í því að segja nei gleymist, kostnaðurinn við það að ákvarða eitthvað sem síðan er kært, sem bröltist síðan um í bákninu sem við höfum skapað til að reyna að halda fólki frá hinu hugsanlega jái.

Dyflinnarreglugerðin eða öllu heldur nýting okkar á henni gerir það að verkum að við tökum frekar fá mál til efnismeðferðar miðað við það sem við gætum og ættum að gera. Í því felst kostnaður. Mér þykir mikilvægt að nefna þetta vegna þess að í umræðunni er gert ráð fyrir því að því fleiri hælisleitendur sem við samþykkjum, þeim mun meira kosti þetta bákn. Reyndin er líklega öfug, að það kosti meira að nýta sífellt allar leiðir sem mönnum dettur í hug til að ýta fólki úr landi vegna þess að það er kært. Það krefst lögfræðiaðstoðar, það krefst uppihalds á meðan fólk bíður eftir niðurstöðu. Það kostar peninga þegar ríkið reynir að taka sér slíkt fyrir hendur.

Ég hefði áhuga á að sjá nánari greiningu á því hvað það kostar, það bákn sem við höfum skapað til að halda fólki frá landinu með öllum hugsanlegum leiðum í stað þess einfaldlega að taka fleiri mál til efnismeðferðar þar sem niðurstaðan yrði oft nei, alla vega í einhverjum tilfellum, stundum já, eftir atvikum og aðstæðum. Það hvernig við reynum að ýta fólki úr landi vil ég meina að kosti okkur miklu meiri peninga en það mundi kosta að taka einfaldlega fleiri mál til efnismeðferðar og þá sérstaklega að segja oftar já.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna