145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi nota tækifærið og fagna sérstaklega nýjum fréttum af flugvallarmálinu frá Icelandair Group. Þær fréttir að Icelandair Group hyggist kanna betur möguleika í Hvassahrauni glæða á ný gamlar vonir sem margir voru orðnir úrkula um, að e.t.v. sé mögulegt að finna lausn í þessu erfiða deilumáli sem geti mætt öllum meginhagsmunum í málinu, bæði landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar og jafnframt flugrekstraraðilanna. Það er núna ákveðið að fyrirtækið ætlar að verja tugum milljóna króna, að sögn forstjórans, til þess að kanna með yfirflugi yfir Hvassahraun hvort þar sé flugtæknilega mögulegt að reka flugvöll, vegna þess að fjölgun erlendra ferðamanna og nauðsyn uppbyggingar alþjóðaflugvallar, þörfin fyrir varaflugvöll og þörfin fyrir innanlandsflugið kunni að gera það fýsilegt að ráðast í uppbyggingu flugvallar þar út frá viðskiptalegum sjónarmiðum.

Ef Hvassahraun er flugtæknilega mögulegt þá fæ ég ekki betur séð en að það mæti bæði þörfum höfuðborgarinnar fyrir landrými í miðborginni en líka þörfum landsbyggðarinnar fyrir greitt aðgengi að höfuðborgarsvæðinu, fyrir góða aðkomu að þjóðarsjúkrahúsinu og mikilvægum öryggishagsmunum í málinu. Þetta ömurlega deilumál hefur skipt mönnum í mjög harðar fylkingar þar sem brigsl hafa gengið á víxl og menn m.a. verið sakaðir um að láta sig engu varða líf og limi og heilsu samlanda sinna. Ég vona svo sannarlega að þó að þetta sé auðvitað enn bara á könnunarstigi þá verði þessari könnun lokið og fyrirtækið fái til þess frið. (Forseti hringir.) Það væri gríðarlegur ávinningur í því fólginn ef við fengjum frá því fyrirtæki (Forseti hringir.) sem leitt hefur uppbyggingu flugsins á Íslandi lausn sem allir málsaðilar gætu sameinast um.


Efnisorð er vísa í ræðuna